Stefnir á Ólympíuleikana í Ríó
Stefanía Daney Guðmundsdóttir, nemandi á starfsbraut VMA, er afrekskona í frjálsíþróttum í flokki fatlaðra og hefur sett sér það markmið að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum fatlaðra í Ríó de Janeiro í Brasilíu að þremur árum liðnum.
Stefanía Daney hefur undanfarin tvö ár æft frjálsíþróttir með Íþróttafélaginu Eik á Akureyri en þegar hún var yngri æfði hún um tíma frjálsar með UFA. Hún er liðtæk í spretthlaupum og langstökki en margt bendir til þess að spjótkastið verði hennar besta grein. Hún byrjaði sl. sumar að kasta spjóti og náði strax undraverðum árangri. Þegar þrjú ár eru til Ólympíuleikanna í Ríó er hún aðeins tveimur og hálfum metra frá Ólympíulágmarkinu og telja verður góðar líkur á að hún nái tilsettri kastlengd á tilsettum tíma.
Fötlun hennar felst m.a. í því að vera blind á öðru auga og því keppir hún í flokki blindra og sjónskertra. Hún er margfaldur Íslandsmeistari í sínum flokki og handhafi nokkurra Íslandsmeta.
Síðastliðið sumar keppti Stefanía Daney fyrir Íslands hönd á Norræna barna- og unglingamótinu fyrir fatlaða í Danmörku og stóð sig frábærlega. Þátttakendum var skipað í styrkleikaflokka og var Stefanía Daney sett í efsta styrkleikaflokk þar sem hún var eina stúlkan en hinir þátttakendurnir í styrkleikaflokknum voru allir strákar. Þrátt fyrir það kom hún heim með þrjú gull, eitt silfur og bikar fyrir framúrskarandi árangur á mótinu.
„Að æfa og keppa í frjálsum er það skemmtilegasta sem ég geri. Yfir sumarmánuðina eru tvær æfingar í viku og yfir vetrarmánuðina er ein æfing í viku inni í Boga,“ segir Stefanía Daney.
Brynja Herborg Jónsdóttir, móðir Stefaníu, segir að sl. sumar hafi Íþróttasamband fatlaðra ýtt úr vör átaki sem kallast „Vertu með“ en það hefur það að markmiði að fá fleiri fatlaða til þess að stunda íþróttir. Einkunnarorð Íþróttasambands fatlaðra eru: „Stærsti sigurinn er að vera með!“ Hér má sjá kynningarmyndband sem Íþróttasamband fatlaðra og Íþróttafélagið Eik létu gera sl. sumar með Stefaníu Daneyju.
„Það er því miður sorglegt hversu margir krakkar sitja heima og halda að þeir geti ekki verið með vegna fötlunar, sama hversu lítil eða mikil hún er,“ segir Brynja Herborg og hvetur fatlaða krakka, sem kynnu að hafa áhuga, að koma á frjálsíþróttaæfingar hjá Íþróttafélaginu Eik sem eru á miðvikudögum kl. 19-20 í Boganum á Akureyri.
Sem fyrr segir er Stefanía Daney, sem er sextán ára gömul, nemandi á starfsbraut VMA. Hún hóf þar nám sl. haust og líkar vel. Svo skemmtilega vill til að Brynja Herborg, móðir hennar, er einnig nemandi í VMA og er á lokasprettinum í hönnun og textíl á listnámsbraut.