Stefnir í flottan Sturtuhaus
Það stefnir í flottan Sturtuhaus – söngkeppni VMA í Gryfjunni fimmtudagskvöldið 10. nóvember nk. Sturtuhausinn er jafnan einn af stærstu viðburðunum í félagslífi VMA á hverjum vetri og svo verður einnig nú. Lokað hefur verið fyrir skráningar í keppnina og er góð þátttaka, fimmtán flytjendur hafa skráð sig til leiks. Til samanburðar voru átta lög í keppninni í fyrra, sem var haldin 11. nóvember 2021 í Gryfjunni.
Þessa dagana er framkvæmdastjórn keppninnar að leggja línur um fyrirkomulagið en fyrir liggur að eins og áður verður bæði lifandi flutningur á tónlistinni og undirleikur af bandi. Nánar um keppnina þegar nær dregur.
Eins og jafnan áður er í mörg horn að líta hjá Þórdunu nemendafélagi um skipulag hinna ýmsu viðburða. Steinar Bragi Laxdal, formaður Þórdunu, segist vænta þess að mögulegt verði að halda ball í lok nóvember. Það muni skýrast betur síðar en eins og er sé áherslan á að gera Sturtuhausinn þann 10. nóvember nk. sem veglegastan.