Stoltur kerrueigandi
Jóhann Rúnar Sigurðsson keypti á dögunum kerru sem nemendur í stálsmíði á málmiðnaðarbraut VMA smíðuðu sl. vor. Reyndar smíðuðu nemendurnir þrjár kerrur en hinar tvær seldust strax sl. vor.
Það fór vel á því að Jóhann Rúnar, sem er formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, keypti kerruna. Sem fagmaður lagði hann að sjálfsögðu mat á verkið og niðurstaða hans var sú að ekki væri betur gert og keypti gripinn! Hann verður ekki svikinn af kerrunni, því hér var sannarlega vandað til verka. Jóhann Rúnar hefur verið afar ötull liðsmaður við uppbyggingu og þróun málmiðnaðarbrautarinnar og lagt henni lið með ýmsum hætti, enda er það svo að vöxtur og viðgangur þessarar iðngreinar byggist ekki síst á öflugu námi í greininni.
Smíði á slíkum kerrum er mikilvægur þáttur í því að þjálfa þá nemendur á málmiðnaðarbraut sem eru lengra komnir í smíðaverkum og um leið fá þeir tækifæri til þess að leggja hönd á plóg við hönnun smíðagripanna. Þannig tileinka nemendur sér hvernig leita skal bestu lausnanna og því hefur kerrusmíðin reynst nemendum mikilvægur þáttur í kennslunni.
Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina, segir að ekki hafi verið ákveðið hvort ráðist verður aftur í smíði á kerrum næsta vor en nokkuð örugglega verði einhverjir góðir smíðagripir fyrir valinu, hvort sem það verða kerrur eða eitthvað annað.