Sumarhús rís
Árvisst verkefni nemenda á öðru ári í húsasmíði í VMA er að byggja sumarbústað. Strax er hafist handa við verkið í byrjun haustannar og er unnið að smíðinni allan veturinn. Til að byrja með er smíðað innan dyra í húsakynnum byggingadeildar, grindin sett saman, útveggir smíðaðir og sperrurnar sömuleiðis.
Síðan er komið að því að taka allar þessar einingar út og raða þeim saman. Að þeim lið í framkvæmdinni var komið í gær. Grindin var fyrst dregin út með krana og síðan voru veggeiningarnar og sperrurnar hífðar á sinn stað. Verkið gekk ljómandi vel, þegar allir leggjast á eitt verður útkoman góð.
Sumarbústaðurinn í ár er 50 fermetrar að grunnfleti, samskonar bústaður og var smíðaður síðasta vetur.
Það verður heldur betur í mörg horn að líta á næstunni fyrir nemendur við smíði bústaðarins, hér eftir sem hingað til. Ljúka þarf við þakið sem fyrst, einangra hann að utan, klæða og loka honum fyrir vatni og vindum. Að því loknu verður hægt að hefjast handa inni.
Gaman er í þessu sambandi að rifja upp þegar bústaðurinn frá því í fyrra var reistur.