Tíu þreyttu sveinspróf í vélvirkjun
Um helgina þreyttu tíu tilvonandi sveinar sveinspróf í vélvirkjun í húsnæði málmiðnbrautar VMA. Þessir tíu próftakar þekkja vel til húsakynnanna því þeir hafa allir stundað nám í VMA. Þeir eru: Ásbjörn Guðlaugsson, Bjarki Freyr Sveinsson, Davíð Fannar Sigurðsson, Jakob Máni Jóhannsson, Kristinn Þeyr Halldórsson, Orri Fannar Jónsson, Óskar Helgi Ingvason, Símon Pétur Borgþórsson, Sölvi Sverrisson og Þórólfur Guðlaugsson.
Sveinsprófið hófst sl. föstudag með skriflegu prófi en sl. laugardag og í gær var prófað í verklega hlutanum.
Í skriflega hlutanum var prófað úr einu og öðru er lýtur að vélum, loft- og vökvakerfum, frystikerfum, öryggisfræði, suðu og lóðningum og verkáætlunum auk almennra spurninga.
Verklegi hlutinn skiptist í fjóra verkþætti: smíðaverkefni, bilanaleit, slitmælingu og suðuverkefni.
Í lýsingu á sveinsprófinu kemur fram að í smíðaverkefninu sé látið reyna á hæfni og nákvæmni próftakans í meðferð handverkfæra, mælitækja, lestur teikninga og vélavinnu. Í bilanaleitinni var sett inn bilun í díselvél og var það verkefni próftaka að finna bilunina, gera skýrslu um hana og gera við. Í slitmælingunni þurftu próftakar að mæla ýmsa hluti í díselvél og meta hvort þeir væru í lagi. Loks var í suðuverkefninu prófað í flestum algengum suðuaðferðum á járni, kopar, áli, steypujárni og ryðfríu stáli. Einnig var prófað í logskurði.