Sveinspróf í vélvirkjun í VMA
Um liðna helgi var haldið sveinspróf í vélvirkjun í húsnæði málmiðnaðarbrautar VMA og voru átta skráðir í prófið. Sveinsprófið var margþætt: skriflegt próf, smíðaverkefni, bilanaleitarverkefni, slitmælingarverkefni, suðuverkefni og vinnuhraði.
Í skriflega prófinu var spurt út í vélar, loft og vökvakerfi, frystikerfi, öryggisfræði, suðu og lóðningar og verkáætlanir, auk almennra spurninga.
Í smíðaverkefninu var reynt á hæfni og nákvæmni próftakans í meðferð handverkfæra, mælitækja, lestur teikninga og vélavinnu t.d. allrahanda spóntökuvéla.
Prófað var í bilanaleit í díselvél þar sem sett var inn bilun sem próftakinn átti að finna, framkvæma viðgerð á og gera stutta skýrslu um það.
Prófað var í slitmælingu, þar sem próftakinn átti að mæla ýmsa hluti í díselvél, meta hvort þeir væru í lagi eða hvort skipta þurfti um þá og gera stutta skýrslu um það.
Prófað var í flestum algengum suðuaðferðum á járni, kopar, áli, steypujárni og ryðfríu stáli ásamt kveikingu.
Síðasti prófþátturinn var síðan vinnuhraði.