Sýnilegt rými og alheimurinn
Þá er komið að síðasta fyrirlestri ársins í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestrar í Listasafninu á Akureyri. Hann verður í dag, þriðjudaginn 5. nóvember, kl. 17-17.40. Fyrirlesari dagsins verður Matt Armstrong, myndlistarmaður, og hefur fyrirlesturinn yfirskriftina Rediscovering Night. Þar mun Armstrong ræða hvernig eðlislægur áhugi hans á sýnilegu rými og alheiminum hefur mótað hann og hvernig enduruppgötvun hans á næturhelmingi lífsins hefur haft áhrif á list hans og sköpunarmátt.
Matt Armstrong hefur unnið sem listamaður í tuttugu ár. Hann er búsettur í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum. Hann lauk BA gráðu frá Valdosta State University í Georgíu þar sem hann lagði áherslu á teikningu og málun.
Armstrong dvelur um þessar mundir í gestavinnustofu Gilfélagsins á Akureyri.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Sem fyrr segir verður fyrirlesturinn í dag sá síðasti á þessu ári en þeim verður fram haldið með hækkandi sól á nýju ári.