Sýningin er persónuleg
„Já, ég held að ég geti sagt að þetta sé persónuleg sýning, ekki síst litlu myndirnar sem ég gerði þegar ég var sem veikust,“ segir Ragnheiður Björk Þórsdóttir, kennari við listnáms- og hönnunarbraut VMA, en hún opnar sýningu á verkum sínum í Ketilhúsinu á Akureyri, á morgun, laugardag, kl. 15. Sýningin, sem ber yfirskriftina „Rýmisþræðir“, verður opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12 til 17, frá 12. september til 25. október. Á meðan á sýningunni stendur verður Ragnheiður hluta úr degi í Ketilhúsinu og vinnur við vefnað í vefstöðum og myndvefnaðarstól.
Ragnheiður var í leyfi frá störfum sínum sem kennari við listnámsbraut VMA á síðustu vorönn og einnig er hún í leyfi núna á haustönn. Hún einbeitir sér að því að ná heilsu eftir mjög alvarleg veikindi á síðasta ári en vonast til þess að geta að einhverju leyti tekið upp þráðinn í kennslunni eftir áramót.
„Þegar ég var útnefnd sem bæjarlistamaður Akureyrar á sumardaginn fyrsta 2014 settum við Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, niður tíma fyrir sýningu á verkum mínum. Þessi tími varð niðurstaðan en fyrstu mánuði þessa árs var ég alltaf kominn að því að hringja í Hlyn og segja honum að vegna veikinda yrði ég að fresta sýningunni. Þrjóskan í mér og áköf hvatning fjölskyldunnar um að halda mínu striki varð þó til þess að ég ákvað að halda mig við þessa dagsetningu. Á þessum tímapunkti var ég þess fullviss að ég megnaði aldrei að vinna nóg fyrir heilstæða sýningu en þegar upp er staðið er ég bara nokkuð ánægð með útkomuna,“ segir Ragnheiður.
Í desember 2014 veiktist Ragnheiður mjög alvarlega og um tíma var hún á milli heims og helju. „Einn daginn í desember í fyrra vaknaði ég og fann ekki fyrir fótunum og hendurnar voru einnig mjög skrítnar því ég gat ekki einu sinni tannburstað mig. Það gekk erfiðlega að finna út hvað væri að mér þangað til loksins kom í ljós að um væri að ræða æðabólga út frá kinnholum. Það sást svokallað bólguensím í hvítu blóðkornunum sem veldur æðabólgu. Þetta hafði örugglega verið búið að hreiðra lengi um sig, í að minnsta kosti þrjú ár, áður en þetta var að lokum greint. Ég fór í meðferð á sjúkrahúsinu hér og einnig á Landspítalanum þar sem áherslan var til að byrja með að stöðva framgang æðabólgunnar því vegna hennar var ég hreinlega komin með drep í fæturnar. Ég fór í viðamikla lyfjameðferð til þess að stöðva bólgurnar, sem er sambærileg við krabbameinsmeðferð,“ sagði Ragnheiðar. Eftir nokkurra vikna sjúkrahúslegu tóku við nokkrar lyfjameðferðir og þriggja mánaða endurhæfing á Kristnesi sem hófst síðari hluta febrúar. „Til að byrja með gat ég nánast ekkert gert. Var í hjólastól og gat hvorki matast né þrifið mig. En síðan hefur sem betur fer margt jákvætt gerst þó svo að ég eigi langt í land. Enn er ég til dæmis með mikla verki í fótunum og dofa á nokkrum stöðum en ég get orðið gengið, keyrt bíl og eldað mat.“
Ragnheiður segir að þegar hún gat byrjað að vefa aftur hafi það gefið sér mikinn aukakraft til þess að takast á við veikindin. Vefnaðurinn hafi gert það að verkum að hún hafi getað vikið huganum frá sársaukanum. "Um leið og ég gat risið upp úr rúminu fór ég að reyna að vefa, til að byrja með aðeins einum fingri. Þá vann ég litlu myndirnar sem eru á sýningunni minni og þær túlka ýmislegt sem tengist veikindunum og hluti sem fóru í gegnum hugann á þessum tíma. Sumar þessara mynda eru mjög sárar og fyrir vikið er sýningin mjög persónuleg,“ segir Ragnheiður en sýning hennar er viðamikil og fjölbreytt.
Hún segist hafa notið ómetanlegrar hjálpar og hvatningar fjölskyldu sinnar og vinnufélaga í VMA við að setja upp sýninguna og fyrir það vilji hún þakka af heilum hug. Á meðfylgjandi mynd er einn af samkennurum hennar á listnámsbraut VMA, Björg Eiríksdóttir, en hún hefur m.a. lagt Ragnheiði lið við uppsetningu sýningarinnar í Ketilhúsinu.
Þess má síðan að lokum geta að nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri samsýning 30 norðlenskra myndlistarmanna, „Haust“ og þar eiga þrír kennarar á listnámsbraut VMA verk; Ragnheiður Björk Þórsdóttir, Arna Valsdóttir og Björg Eiríksdóttir. Og fjórði kennarinn við listnámsbrautina, Anna María Guðmann, sýnir nú verk sín í Ráðhúsinu á Akureyri. Það er því enginn skortur á sköpunargleði kennaranna á listnámsbraut VMA.