Taka upp kennsluefni í tækniveri
Það er mjög mismunandi hvernig kennarar haga sinni kennslu í því óvenjulega ástandi sem núna er, enda eru námsbrautirnar eins misjafnar og þær eru margar. Í skólanum hefur verið sett upp einskonar tækniver þar sem bæði er hægt að streyma kennslustundum beint og einnig að taka upp myndefni til þess að miðla til nemenda.
Í gær voru kennararnir Hilmar Friðjónsson og Inga Björg Ólafsdóttir að taka upp myndbönd til þess að senda nemendum með útskýringum á nokkrum dæmum úr þáttun í grunnáfanga í stærðfræði sem þau kenna á þessari önn. Í sömu stofu sat Haukur Jónsson kennari við borð og teiknaði myndir í áfanga í fagteikningu iðnaðarmanna – í þessu tilviki fyrir nemendur í byggingadeild og málmsmíði. Teknar voru margar myndir af ferlinu, frá því að teikningin hefst og þar til teikningin er fullbúin, til þess að nemendur geti gert sér grein fyrir ferlinu. Myndunum er síðan miðlað til nemenda.
Þetta eru aðeins tvö lítil dæmi um hvernig kennarar nýta sér tæknina til þess að nálgast kennsluna við breyttar aðstæður. Fjölmargar aðrar leiðir eru farnar, en allar hafa þær það sama markmið að halda uppi eins öflugri kennslu og mögulegt er.
Í þessu sambandi er vert að rifja upp frétt hér á vefnum um hjálparmyndbönd í stærðfræði. Þau nýtast nemendum vel við þessar aðstæður.