Fara í efni

Tal og tónar frá Alaska í Gryfjunni

Gryfjan var þéttsetin í gær.
Gryfjan var þéttsetin í gær.
Byron Nicholai, tvítugur piltur frá Alaska, heimsótti VMA í gær og sagði frá sér og samfélaginu í suðvesturhluta Alaska. Einnig flutti hann tónlist, bæði ævaforn og þjóðleg stef frá Alaska og einnig lög sem hann hefur fært í sinn eigin búning. Bryan vakti verðskuldaða athygli áhorfenda í Gryfjunni og hún var þéttsetin á meðan á fyrirlestrinum stóð.
 
Alaska er eitt af ríkjum Bandaríkjanna og jafnframt það víðfeðmasta, 1,7 milljónir ferkílómetrar. Til samanburðar er Ísland rösklega eitthundrað þúsund ferkílómetrar. Í Alaska búa um 730 þúsund manns og því lætur nærri að þar búi um helmingi fleiri en á Íslandi. Á stórum svæðum í Alaska er ekki búið, enda norðursvæðin köld og erfið til búsetu. Bróðurpartur fólksins talar ensku en einnig eru fjölmörg önnur tungumál töluð í Alaska og mikil hætta er á því að mörg þeirra muni deyja út. Byron Nicholai fæddist við Toksook flóa, sem er ekki svo fjarri Bethel, þar sem hann býr núna. Hans móðurmál er Yup'ik - tungumál sem gæti hæglega glatast með tíð og tíma ef ekki er lögð áhersla á að varðveita það. Á varðveislu menningararfsins vill Byron leggja áherslu og þess vegna hefur hann unnið að því að kynna menningu síns fólks, segja frá lífinu í sínu heimalandi og kynna tónlistina. 
 
Byron lauk framhaldsskóla fyrir þremur árum og hefur síðan unnið að eigin tónlistarsköpun og að kynna menningu og tónlist landa sinna í Alaska. Í framtíðinni segist hann hafa mikinn áhuga því að mennta sig frekar í tónlist í háskóla í Anchorage, höfuðborginni í Alaska. Byron leggur ríka áherslu á gamla menningu og hefðir fólksins í sínu heimalandi en hann leggur líka mikið upp úr því vinna nýja tónlist sem höfðar til unga fólksins með því að nýta gamla tónlistararfleifð frá Alaska. Eitt af þeim lögum sem hann flutti í Gryfjunni var hip-hop útgáfa hans af gömlu stefi frá Alaska.
 
Byron mun m.a. koma fram í kvöld í móttöku á Arctic Circle ráðstefnunni sem nú stendur yfir í Reykjavík og einnig flytur hann dagskrá á morgun, föstudag, þar sem tónlistin verður í öndvegi, í Veröld - húsi Vigdísar Finnbogadóttur.