Textíllistakona með þriðjudagsfyrirlestur
Í dag, þriðjudaginn 16. febrúar, kl. 17 heldur þýska textíllistakonan Claudia Mollzahn fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Textiles in Movement. Þar fjallar hún um þroskaferli sitt í listinni með því að skoða eigin verk og tilvísanir í listamenn sem hafa haft áhrif á hana.
Claudia notar hefðbundnar handverksaðferðir í verkum sínum: prjón, hekl og þæfingu; ullargarn og efni. Aðferðir hennar hafa þróast innan þess sögulega samhengis sem tengist ullarframleiðslu og ullarvinnslu í Wales en þar hefur hún verið búsett síðan 1992. Listrænar rætur Claudiu liggja í handverkinu en hún hefur einnig unnið með vídeó, ljósmyndir, leir og gjörninga. Hún hefur unnið mikið með fjölfötluðu fólki og hefur sú vinna haft afar sterk áhrif á bæði listsköpun hennar og persónu.
Claudia lauk framhaldsmenntun í fullorðinsfræðslu frá University of Wales College Newport 1997 og í textíllist frá Swansea Metropolitan University, Wales 2012. Hún dvelur um þessar mundir í gestavinnustofu Gilfélagins í Listagilinu.
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í Ketilhúsinu á þriðjudögum í vetur sem hófst sl. haust og lýkur fyrir páska.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.
Aðgangur á fyrirlesturinn í dag er ókeypis og eru allir velkomnir