Fara í efni

Textílnemendur og -kennarar frá VMA á leið til Þrándheims

Nemendur og kennarar VMA á leið til Þrándheims.
Nemendur og kennarar VMA á leið til Þrándheims.
Næstkomandi sunnudag fara sex textílnemendur á þriðja og fjórða ári á listnámsbraut ásamt kennurunum Sólveigu Þóru Jónsdóttur og Sveinu Björk Jóhannesdóttur til Þrándheims í Noregi þar sem hópurinn mun kynna sér sambærilegt nám í framhaldsskólanum Charlottenlund þar í borg. Mjög gott samstarf hefur myndast á milli VMA og Charlottenlund undanfarin ár og hafa bæði nemendur og kennarar frá báðum skólum skipst á heimsóknum.
Ferðin er styrkt af Erasmus og Nordplus og duga styrkirnir til þess að greiða fyrir bæði flug og gistingu í Þrándheimi.
Hópsins bíður spennandi vika því búið er að skipuleggja skemmtilega dagskrá sem hefst strax á mánudagsmorgun. Nemendur og kennarar fara í skólann og taka þar þátt í skólastarfinu, sitja tíma og fylgjast með hvernig kennslunni er háttað. Einnig eru á dagskránni heimsóknir í textílvinnustofur í Þrándheimi. Hópurinn er síðan væntanlegur heim að rúmri viku liðinni, föstudaginn 23. september.
 
Sólveig Þóra Jónsdóttir segir eftirvæntingu í hópnum, enda áhugavert að kynnast því hvernig textílkennslunni sé háttað í Noregi. Bæði verði ferðin án efa lærdómsrík fyrir nemendur og kennara. "Charlottenlund og VMA eru um margt líkir. Báðir skólar eru með bæði bóknáms- og verknámsdeildir og stærð þeirra ekki ósvipuð. Þetta er fyrst og fremst frábært tækifæri fyrir nemendur að kynnast einhverju nýju í sínu fagi og ég bind miklar vonir við að það samstarf sem þegar er komið á milli skólanna geti haldið áfram. Raunar eru textílnemendur og -kennarar frá Charlottenlund væntanlegir í heimsókn til okkar í VMA í nóvember," segir Sólveig Þóra.