Það má aldrei sofna á verðinum
Leikfélag VMA frumsýnir farsann Bót og betrun í Gryfjunni nk. föstudagskvöld. Spennan magnast, bæði hjá leikhópnum og öllum sem koma að sýningunni og auðvitað einnig áhorfendum sem bíða spenntir eftir að sjá afraksturinn. Einn úr leikhópnum er Svavar Máni Geislason. Hann fer með hlutverk George, frænda Eric Svan, sem leikritið fjallar öðrum þræði um.
Svavar Máni segist hlakka mikið til þess að stíga á svið, verkið hafi verið í æfingu síðan í október og nú sé að koma að stóru stundinni. Hann segist lengi hafa verið viðloða leiklist, á grunnskólaárum sínum í Síðuskóla hafi hann tekið þátt í mörgum leikuppfærslum, m.a. í Grís og Emil í Kattholti. Þá hafi hann farið á fjölda leiklistarnámskeiða í Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar og í fyrra hafi hann verið í leikhópnum í Lísu í Undralandi.
En verkefni vetrarins, Bót og betrun, segir hann að sé allt öðruvísi en hann hafi áður tekið þátt í. Fyrirfram hefði hann ímyndað sér að leikur í farsa væri fyrst og fremst tómur fíflagangur, eins og hann orðar það, en hann hafi fljótt komist að raun um að svo sé alls ekki. Að leika í farsa sé mjög krefjandi og það megi aldrei sofna á verðinum, enda séu skiptingarnar hraðar og hlutirnir þurfi að ganga vel fyrir sig.
En hvernig er karakterinn Geoge sem Svavar Máni túlkar í sýningunni? Mjög glaðlegur, segir hann, hjálpsamur, frekar skemmtilegur og skiptir eiginlega aldrei skapi. Svavar Máni segir að karakterinn hafi tekið töluvert miklum breytingum á æfingatímanum, eftir því sem hann kynntist honum nánar og betur. George þvælist eiginlega alveg á óvart inn í flókna atburðarás, komi í heimsókn til frænda síns og allt í einu sé hann orðinn miðpunktur í flókinni atburðarás.
Svavar Máni segir að leiklistin gefi sér mikið. Samvinnan með öðrum í hópnum sé skemmtileg og gefandi og þátttaka í þessu veiti sér mikla reynslu sem fari í reynslubankann. Af reyndum leikstjóra eins og Sögu Jónsdóttur sé margt að læra.
Í VMA stundar Svavar Máni nám á fjölgreinabraut. Hann var á grunndeild matvæla sl. vetur en fór á fjölgreinabraut í vetur og stefnir á stúdentspróf. Að því loknu segist hann hafa áhuga að læra leiklist, á það hafi hann lengi stefnt.
Hér eru myndir sem Hilmar Friðjónsson tók af Svavari og öðrum í sýningunni á æfingu í síðustu viku.
Svo er bara um að gera að tryggja sér miða sem fyrst. Hér er hægt að kaupa þá.