Það var í þá daga ...
Og áfram höldum við að horfa um öxl í sögu VMA enda er þema þessarar viku í skólanum 40 ára afmæli skólans. Það leynist allskonar fróðleikur í skólablöðum VMA sem hafa verið gefin út í gegnum tíðina. Útgáfan hefur þó verið nokkuð stopul, einkum síðustu árin. Tímarnir breytast og mennirnir með og net- og samfélagsmiðlar hafa að nokkru leyti tekið við af útgáfu skólablaða og það á ekki bara við um VMA.
Þegar kíkt er í gömul skólablöð kemur í ljós að þau hafa heitið ýmsum nöfnum í gegnum tíðina, t.d. Námsviljinn, Peran og Jón krukkur. Og einstaka deildir hafa líka gefið út eigin blöð, t.d. gáfu vélstjórnarnemar út um árabil Smyrilinn. Og 1994 gaf Umferðarráð VMA út blaðið Tækið. Útgáfuflóran hefur því verið fjölbreytt og skemmtileg og þar hefur sannarlega eitt og annað verið á borð borið fyrir lesendur eins og hér má sjá.
Klúbbastarfsemi í skólanum hefur verið mjög fjölbreytt í gegnum tíðina. Til dæmis voru íþróttir í hávegum hafðar um tíma og stillt upp keppnisliðum í handbolta, fótbolta og blaki í nafni skólans og að sjálfsögðu voru keppendur í keppnistreyjum með merki skólans og auglýsingu frá Búnaðarbankanum!
Og fyrst Búnaðarbankans er getið - eins þeirra banka sem nú heyra sögunni til. Þegar skólablöðunum er flett kemur í ljós að ótrúlegur fjöldi fyrirtækja á Akureyri sem hafa auglýst í skólablöðunum eru ekki lengur til. Ekki þó svo að skilja að fyrirtækin hafi horfið af sjónarsviðinu vegna þess að þau auglýstu í skólablöðum VMA! Það er einfaldlega allt breytingum háð, fyrirtæki koma stöðugt og fara. Hér gefur að líta auglýsingar frá nokkrum þeirra fyrirtækja sem nú heyra sögunni til.
Sívinsæll þáttur í skólablöðunum voru viðtöl við kennara. Gaman er að rifja upp viðtöl við tvo kennara sem enn eru í kennaraliði VMA, Hálfdán Örnólfsson og Jóhannes Árnason. Sjón er sögu ríkari.