Þar sem millimetrarnir vega þungt
Þessa dagana gangast nemendur VMA undir próf og hafa skilað af sér verkefnum í bæði bóklegum og verklegum greinum. Gaman er að skoða námsverkefni nemenda og sjá hversu vandað er til verka.
Í grunndeild málmiðnaðar hafa allir nemendur þurft að skila sömu smíðagripunum; bíl, pennastandi og jójói og nemendur á fjórðu önn í vélstjórn hafa á þessari önn smíðað loftvél og jójó.
Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina í VMA, segir alltaf ánægjulegt að meta smíðagripi nemenda. Smíði þessara hluta sé mikil nákvæmnisvinna og þar séu millimetrarnir fljótir að telja. Hér sést hvar Stefán Finnbogason kennari er að mæla smíðaverkefnin, því einkunn tekur mið af m.a. nákvæmni í smíði, réttri málsetningu o.s.frv.
Til marks um hversu flókin smíði á einum litlum vörubíl er nefnir Hörður að hann sé samansettur úr meira en tuttugu hlutum. Hver og einn hlutur bílsins verði að vera hárrétt smíðaður til þess að allt falli rétt saman.