Þéttskipuð stundaskrá hjá Aldísi!
Haustið 2017 innritaðist Aldís Lilja Sigurðardóttir í hársnyrtiiðn í VMA beint úr 9. bekk Hrafnagilsskóla. Fjórar bekkjarsystur hennar í Hrafnagilsskóla fóru einnig beint úr 9. bekk í framhaldsskóla, tvær í VMA og tvær í MA.
„Ég var í einn vetur í hársnyrtiiðn en fann út að hún hentaði mér ekki alveg. Ég skipti þá yfir á náttúrufræðibraut og var á henni í einn vetur en fann mig ekki heldur þar nægilega vel. Því fór ég að skoða málið og fann út að á fjölgreinabraut hefði ég meira val um hvaða áfanga ég gæti tekið. Ég skipti því yfir á fjölgreinabrautina og stefnan er að útskrifast í vor,“ segir Aldís. Hún segir að á fjölgreinabrautinni nýtist henni áfangar sem hún hafi tekið frá því hún var í hársnyrtiiðninni og einnig hafi hún valið að taka fleiri áfanga í náttúruvísindum og á listnáms- og hönnunarbraut – prjón og hekl og fatasaum.
Að lokinni útskrift úr VMA segist Aldís horfa til þess að fara næsta haust í líftækni í Háskólanum á Akureyri. „Mér finnst það nám heillandi og það gefur ýmsa möguleika á vinnumarkaði,“ segir Aldís.
Hún segir að áfangakerfið hafi nýst sér mjög vel því það hafi veitt sér svigrúm til þess að stjórna námshraða sínum betur. „Ég ákvað að nýta möguleika áfangakerfisins og vera ekkert að flýta mér að klára námið á þremur árum – og um leið að njóta þess að vera í framhaldsskóla,“ segir Aldís.
Auk námsins hefur Aldís haft mörg járn í eldinum, hún var um tíma í stjórn Þórdunu og í mörg ár hefur hún þjálfað unga og upprennandi krakka í listhlaupi á skautum hjá Skautafélagi Akureyrar. Stundaskráin hefur því oft og tíðum verið ansi vel pökkuð. „Ég æfði skauta frá fimm ára aldri og þar til ég fór í framhaldsskóla. Síðustu árin sem ég var að æfa hjálpaði ég til í skautaskólanum en eftir að ég hætti að æfa hef ég einbeitt mér að þjálfun og tekið þjálfaranámskeið hjá ÍSÍ og Skautasambandinu,“ segir Aldís og bætir við að mikill tími fari í þjálfunina, núna sé hún að þjálfa 4-6 sinnum í viku.