Þitt nafn bjargar lífi - nemendur í VMA safna undirskriftum
Þitt nafn bjargar lífi – er yfirskrift átaks á vegum Amnesty International sem nemendur í áfanganum FÉLA3ML05 í VMA (þar sem fjallað er um mannréttindi) taka þátt. Verkefnið felst í að fá fólk til þess að skrá nöfn sín á heimasíðu Íslandsdeildar Amnesty International á Íslandi til þess að setja þrýsting á stjórnvöld út um allan heim að bæta ráð sitt.
Hér má sjá þau tíu mál sem Amnesty vekur nú athygli á þar sem stjórnvöld viðkomandi landa beita fólk órétti og Amnesty þrýstir á þau um breytta stefnu.
Vert er að taka fram að undirskriftasöfnun Amnesty á Íslandi er um leið keppni á milli hérlendra framhaldsskóla að safna sem flestum undirskriftum. Nemendur og starfsmenn VMA og aðrir eru því minntir á að haka við skólakeppnina og nafn skólans þegar þeir fara inn á heimasíðu Amnesty og skrifa undir.
Þetta er sannarlega þarft og gott málefni og full ástæða til þess að leggja Amnesty lið í mannréttindabaráttu sinni. Á hverjum degi höfum við fyrir augum okkar í fjölmiðlum glæpi og alvarleg mannréttindabrot og nægir þar að nefna þann skelfilega harmleik sem nú er að eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem þúsundir almennra borgara láta lífið í miskunnarlausu stríði Ísraelshers og Hamas. Það sama má segja um gerræði Pútíns í Úkraínu sem hefur strádrepið fólk, bæði hermenn og almenna borgara.