Þórduna fékk viðurkenningu frá Akureyrarbæ
Þórduna, nemendafélag VMA, hlaut viðurkenningu samfélags- og mannréttindaráðs Akureyrarbæjar fyrir frumkvæði að söfnun framhaldsskóla landsins fyrir stríðshrjáð börn í Sýrlandi. Viðurkenningin var afhent sl. fimmtudag.
Viðurkenningin sem Þórduna fékk er ein af fimm viðurkenningum sem samfélags- og mannréttindaráð afhenti fyrir starf á sviði æskulýðsstarfs og tómstunda. Þrjár viðurkenningarnar voru til einstaklinga og tvær fyrir verkefni – annað þeirra var áðurnefnt verkefni sem Þórduna hafði frumkvæði að en hitt verkefnið hlutu 117 manns úr þjónustu- og félagsmiðstöðvum aldraðra í Bugðusíðu og Víðilundi sem hekluðu og prjónuðu mósaíkteppi með skjaldarmerki Akureyrarkaupstaðar í tilefni 150 ára afmælis bæjarins á síðasta ári.
Í hópi einstaklinga 17 ára og yngri hlutu viðurkenningu Styrmir Elí Ingólfsson og Þórkatla Haraldsdóttir. Styrmir hefur verið fulltrúi Norðurlands í ungmennaráði Samfés og m.a. komið að námskeiðum um einelti víðsvegar um landið. Þórkatla starfar með ungmennaráði Akureyrar, er virk í æskulýðsstarfi Akureyrarkirkju og hefur verið virk í baráttu gegn einelti. Að auki yrkir hún ljóð og semur tónlist.
Í hópi einstaklinga 67 ára og eldri hlaut Óðinn Árnason viðurkenningu fyrir áratuga starf í þágu skíðaíþróttarinnar ekki síst störf við Andrésar Andar leikana.