Fara í efni

Þorri blótaður í grunndeild matvælagreina

Þorramaturinn var auðvitað settur í trog.
Þorramaturinn var auðvitað settur í trog.

Nemendur í grunndeild matvæla- og ferðagreina fögnuðu þorra sl. föstudag með veglegu þorrablóti. Ari Hallgrímsson kennari leiðbeindi nemendum með að útbúa þorramatinn í ekta trog og síðan var útbúin kartöflumús og rófustappa. Veisluborðið var sannarlega ríkulegt af kræsingum og nemendur luku að sjálfsögðu deginum með því að gæða sér á kræsingunum.

Þorrinn er fjórði vetrarmánuðurinn að fornu tímatali og við upphaf hans telst veturinn hálfnaður. Hann hefst í þrettándu viku vetrar – frá 19. til 25. janúar – og hann stendur fram að góu sem hefst á sunnudegi á bilinu 18. til 24. febrúar. Hver þekkir ekki orðatiltækið að þreyja þorrann og góuna?

Þorrahlaðborð nemenda í grunndeild matvæla- og ferðagreina var ríkulegt. Þar var nýtt lambakjöt, hangikjöt, sviðasulta, grísasulta, súr hvalur, lundabaggar, rúgbrauð, harðfiskur, hákarl, magáll, súr lifrapylsa og kartöflu- og rófustappa.

Nemendur voru misjafnlega áfjáðir í að borða súrmatinn og hákarlinn en þeir voru engu að síður sammála um að þessi siður mætti ekki deyja út, þorrablót yrðu að lifa um aldur og ævi!

Og eins og á öllum góðum þorrablótum brustu nemendur í söng – a.m.k. hluti þeirra. Fyrsta lagið var auðvitað Þorraþræll:

Nú er frost á Fróni,
frýs í æðum blóð,
kveður kuldaljóð
Kári í jötunmóð.
Yfir laxalóni
liggur klakaþil,
hlær við hríðarbyl
hamragil.

Mararbára blá
brotnar þung og há
unnarsteinum á,
yggld og grett á brá.
Yfir aflatjóni
æðrast skipstjórinn,
harmar hlutinn sinn
hásetinn.

Horfir á heyjaforðann
hryggur búandinn:
,,Minnkar stabbinn minn,
magnast harðindin. -
Nú er hann enn á norðan,
næðir kuldaél,
yfir móa og mel
myrkt sem hel.

Bóndans býli á
björtum þeytir snjá,
hjúin döpur hjá
honum sitja þá.
Hvítleit hringaskorðan
huggar manninn trautt;
Brátt er búrið autt,
búið snautt.

Þögull Þorri heyrir
þetta harmakvein
gefur grið ei nein,
glíkur hörðum stein,
engri skepnu eirir,
alla fjær og nær
kuldaklónum slær
og kalt við hlær:

,,Bóndi minn, þitt bú
betur stunda þú.
Hugarhrelling sú,
er hart þér þjakar nú,
þá mun hverfa, en fleiri
höpp þér falla í skaut.
Senn er sigruð þraut,
ég svíf á braut.

Þjóðlag / Kristján Jónsson