Þórunn Soffía með þriðjudagsfyrirlestur
Þórunn Soffía Þórðardóttir heldur þriðjudagsfyrirlestur í Ketilhúsinu, sem er hluti af Listasafninu á Akureyri, í dag kl. 17. Þessi árlega fyrirlestraröð hófst sl. þriðjudag og verður fastur liður á þriðjudögum í vetur. Fyrirlestraröðin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Háskólans á Akureyri og Myndlistarfélagsins. Aðgangur er ókeypis.
Þórunn Soffía Þórðardóttir lauk BA-prófi í listfræði frá Háskóla Íslands og lauk síðan prófi í menntunarfræðum sl. vor og er með réttindi til þess að kenna listasögu á framhaldsskólastigi.
Í fyrirlestri sínum í dag segir Þórunn Soffía frá lokaverkefni sínu í menntunarfræðum en þar fjallar hún um fagmennsku og ígrundun safnakennara á listasöfnum. Í verkefninu skoðaði hún hlutverk safnakennara og rannsakaði afstöðu þeirra til vinnu sinnar.