Þreyta sveinspróf í stálsmíði
Í dag lýkur í VMA sveinsprófi í stálsmíði og þreyta það að þessu sinni fimm verðandi stálsmiðir. Prófið hófst sl. miðvikudag með skriflegu prófi og teikniprófi og í gær og dag er verklegt próf.
Sveinsprófi í stálsmíði er skipt upp í fimm þætti: skriflegt próf, teikniverkefni, smíðaverkefni, suðuverkefni, frágang smíðaverkefnis og vinnuhraða við smíðaverkefnið. Hver þáttur er metinn sérstaklega. Próftaki þarf að standast í öllum þáttum prófsins til að ljúka sveinsprófinu.
Skriflegt próf og teiknipróf
Skriflega prófið vegur 25% í lokaeinkunn sveinsprófsins. Prófað var í öryggisatriðum, rafsuðuþráðum, logskurði og iðnreikningi. Gefin er sérstök einkunn fyrir gerð teikningar er vegur 10% af heild sveinsprófsins.
Smíðaverkefni
Í smíðaverkefninu er prófað í meðferð handverkfæra, mælitækja, lestur teikninga og vélavinnu.. Smíðaeinkunnin vegur 25% af lokaeinkunn prófs.
Málmsuðuverkefni
Prófað er í flestum algengum suðuaðferðum á járni, og ryðfríu stáli. Einkunn í suðuverkefni vegur 25% af lokaeinkunn prófs.
Frágangur
Frágangur og útlit verkefnanna vegur 7% af lokaeinkunn prófs.
Vinnuhraði
Gefið er fyrir vinnuhraða. Vinnuhraða einkunnin metin þannig að þeir nemendur sem fá 6,5 eða hærra fyrir smíðaverkefnið hafa möguleiká að fá hærri einkunn en 5 í vinnuhraða. Einkunn fyrir vinnuhraða vegur 8% í lokaeinkunn.
----
Á meðfylgjandi mynd sem Hörður Óskarsson tók eru piltarnir fimm sem þreyta sveinspróf í stálsmíði í VMA að þessu sinni. Aftari röð frá vinstri: Haukur Fannar Möller, André Sandö og Einir Þór Kjartansson. Fremri röð frá vinstri: Pétur Wilhelm Jóhannsson og Gunnar Karl Guðjónsson. Fjórir piltanna, Haukur Fannar, André, Einir Þór og Gunnar Karl, stunduðu nám sitt í VMA en Pétur Wilhelm tók nám sitt syðra.