Þreyttu sveinspróf í hársnyrtiiðn
Síðastliðinn laugardag var verklegur hluti sveinsprófs í hársnyrtiiðn í VMA. Sex konur þreyttu prófið, þar af hafa fimm þeirra lokið námi sínu í hársnyrtiiðn í VMA: Brynja Jóhannesdóttir (VMA), Írena Fönn Clemmensen (VMA), Kamilla Sigríður Jónsdóttir (VMA), Sigurbjörg Halldórsdóttir (Hárakademían í Reykjavík), Urður Ylfa Arnarsdóttir (VMA) og Kristjana Lóa Sölvadóttir (VMA).
Til þess að þreyta sveinspróf þurfa nemendur að hafa lokið bæði námi í skóla og tilsettum samningstíma undir handleiðslu meistara. Allar hafa þær unnið á samningstíma sínum á stofum á Akureyri: Kamilla Sigríður og Brynja á Zone, Írena Fönn, Sigurbjörg og Kristjana Lóa á Adelle, og Urður Ylfa á Amber.
Eins og í öðrum iðngreinum er sveinspróf tvískipt; annars vegar bóklegt próf og hins vegar verklegt. Bóklega prófið var 21. febrúar sl. og sl. laugardag var síðan komið að verklega prófinu. Það skiptist í sex hluta; blástur, klippingu og litun, permanent, skegg, herraklippingu og uppgreiðslu.