Þreyttu sveinspróf í vélvirkjun
Um liðna helgi þreyttu tíu einstaklingar sveinspróf í vélvirkjun í húsnæði málm- og véltæknigreina í VMA. Á sama tíma var samskonar próf lagt fyrir verðandi vélvirkja í verknámsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem tóku sveinsprófið á Akureyri að þessu sinni voru flestir af Norðurlandi en einnig komu þeir úr öðrum landshlutum. Margir þessara einstaklinga tóku sitt nám við VMA.
Í hverri iðngrein er efnt til sveinsprófs í það minnsta einu sinni á ári fáist nægileg þátttaka. Prófið í VMA hófst með skriflegu prófi sl. föstudag en síðan tók verklegi þátturinn við bæði laugardag og sunnudag, kl. 08 til 18 báða dagana. Verklegi hlutinn fólst í smíðaverkefni, vélaprófi og suðuverkefni og þarf hver próftaki að standast prófi í hverjum einstökum þætti prófsins til þess að ljúka sveinsprófinu. Sérstök einkunn er gefin fyrir skriflega hlutann en vægi verklega hlutans er sem hér segir: Smíði 45%, frágangur og útlit 10%, slitmæling 10%, bilanaleit 10% og suða 25%.
Niðurstöður úr sveinsprófum liggja ekki fyrir strax og þeim lýkur. Gangur mála er sá að formaður svokallaðrar sveinsprófsnefndar skilar einkunnum úr sveinsprófi til Iðunnar fræðsluseturs eins fljótt og auðið er og gefur sveinsprófsnefnd sér allt að fimm vikur til að skila einkunnum, í sumum tilfellum lengur.
Meðfylgjandi mynd tók Hörður Óskarsson um liðna helgi af þeim tíu próftökum sem þreyttu sveinsprófið í vélvikjun í VMA.