Listsköpun undir áhrifum frá Panama
Í síbreytilegum heimi er ekki ónýtt að vera þrítyngdur – að geta fært sig á milli tungumála eins og ekkert sá sjálfsagðara. Anna Catherine Weand, nemandi á listnáms- og hönnunarbraut í VMA, er gott dæmi um þetta. Hún talar íslensku, spænsku og ensku.
Föðurætt Önnu Catherine er íslensk en móðurættin panamönsk. Móðir Önnu er sem sagt frá Mið-Ameríulandinu Panama, sem er nokkru minna en Ísland að flatarmáli en þar búa hins vegar mun fleiri eða á milli 4 og 5 milljónir manna. Móðir Önnu flutti frá Panama til Íslands og hóf búskap með íslenskum föður hennar. Anna og eldri systir hennar fæddust báðar hér á landi.
Í Panama er spænska hið opinbera tungumál en einnig er enskukunnátta fólks þar nokkuð almenn. Anna segir að spænskuna hafi hún fengið í vöggugjöf frá móður sinni, saman tali þær á spænsku. Foreldrar sínir tali hins vegar saman á ensku en þær systur tali saman til skiptis á spænsku og ensku. Hins vegar segist Anna tala íslensku við föður sinn. Heimilið er því þrítyngt, ef svo má segja, þar eru samskiptin á spænsku, ensku og íslensku.
Eins og vera ber eru rík tengsl Önnu við Panama, enda á hún þar ömmu og fullt af frændfólki. Fyrir kóvid lá leiðin reglulega til Panama en síðast segist hún hafa farið þangað árið 2018. Reyndar bjó fjölskyldan í Panama á árunum 2009 til 2012. Á þessum tíma var hún í skóla í Panama og kynntist því vel hversu ólík menning er þar og hér á landi. Að ekki sé talað um veðurfarið. Það fer lítið fyrir norðanhríð í Panama, sumar og sól er þar meira áberandi, enda landið ekki svo ýkja langt frá miðbaug.
Anna Catherine segir að snemma hafi komið í ljós áhugi hennar á því að teikna og einhvern veginn hafi legið beint við að fara í listnám í framhaldsskóla. Á listnáms- og hönnunarbraut VMA fór hún haustið 2019 og segist ekki sjá eftir því, námið sé gefandi og skemmtilegt. Í akrílverki sem Anna málaði í málunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn 2021 gaf hún sköpunarkraftinum lausan tauminn og fléttaði saman í verkinu ýmsu úr náttúrunni á Íslandi og í Panama. Verkið er til sýnis á vegg gegnt austurinngangi VMA.
En hvað tekur við eftir VMA? Kemur í ljós, segir Anna, en ekki ósennilegt að grafísk hönnun verði fyrir valinu.