Þrjár sýningar á Hryllingsbúðinni um helgina - búið að bæta við tveimur sýningum
Í kvöld, föstudag, kl. 20 verður þriðja sýningin á Litlu hryllingsbúðinni í uppfærslu Leikfélags VMA í Samkomuhúsinu. Tvær fyrstu sýningarnar voru um síðustu helgi og tókust gríðarlega vel, sýningin fékk frábærar viðtökur.
Á morgun, laugardag, verða tvær sýningar á Litlu hryllingsbúðinni, annars vegar kl. 19 og hins vegar kl. 22. Fyrir þá sem ekki komust á sýninguna um síðustu helgi og komast heldur ekki í Samkomuhúsið í kvöld eða annað kvöld er vert að undirstrika að búið er að bæta við tveimur sýningum sem verða að viku liðinni, föstudagskvöldið 4. nóvember og laugardagskvöldið 5. nóvember.
Sindri Snær Konráðsson, sem er í burðarhlutverkinu Baldri í Litlu hryllingsbúðinni, segir að fyrstu tvær sýningarnar hafi gengið mjög vel. „Þetta gekk bara mjög vel og við sem komum að sýningunni vorum sátt. Og ég heyrði ekki annað en að áhorfendur væru einnig mjög ánægðir, í það minnsta fékk sýningin mjög góðar viðtökur,“ segir Sindri Snær og hlakkar til sýninganna þriggja um helgina.
Verð aðgöngumiða er kr. 3.490 en Þórdunu- og Huginsfélagar (nemendafélög VMA og MA) fá miðann á 3000 kr. gegn framvísun nemendaskírteina í miðasöluninni í Menningarhúsinu Hofi. Miðar eru sem sagt seldir í Hofi og einnig á netinu á mak.is og tix.is.