Þrjár VMA-söngkonur á sviðinu í Hofi
„Ég held að verði nú bara að segja að VMA sé að gera það gott í söngnum þetta árið,“ segir Elísa Ýrr Erlendsdóttir, en hún kom fram á þrennum jólatónleikum í Hofi sl. laugardag sem Friðrik Ómar Hjörleifsson stóð fyrir. Aðrir tveir VMA-nemendur komu fram á tónleikunum – Bjarkey Sif Sveinsdóttir og Sunna Björk Þórðardóttir.
Elísa Ýrr söng „Ég sá mömmu kyssa jólasvein“ og þær frænkurnar Bjarkey Sif og Sunna Björk sungu saman „Ég hlakka svo til“. „Þetta var frábærlega gaman. Þetta var mjög stór viðburður og tónleikarnir tókust í alla staði vel. Það var mjög gaman að kynnast því að taka þátt í þessu öllu saman og kynnast öllu því fólki sem þarna tók þátt, t.d. Helenu Eyjólfs. Þetta fer svo sannarlega í reynslubankann,“ segir Elísa Ýrr og segist ótrauð ætla að halda áfram á söngbrautinni. „Ekkert annað kemur til greina,“ segir hún.
Þetta var árið sem Elísa Ýrr vakti athygli í söngnum. Hún sigraði söngkeppni VMA sl. vetur og fyrir þann sigur fékk hún m.a. í verðlaun að syngja á jólatónleikum Friðriks Ómars í Hofi sl. laugardag. Og hún lét ekki þar við sitja, heldur sigraði hún einnig í söngkeppni framhaldsskóla á Norður- og Austurlandi í Hofi. Þriðja stóra ævintýri ársins hjá Elísu Ýrr var síðan þátttaka í Voice Ísland söngkeppninni. Hún komst í aðra umferð og mun birtast landsmönnum aftur annað kvöld, föstudagskvöld, í Voice. Fróðlegt verður að sjá hvernig henni vegnar þar. Og í sama þætti verður annar söngfugl af listnámbraut VMA, Valgerður Þorsteinsdóttir.
Bjarkey Sif Sveinsdóttir hefur áður staðið á sviðinu í Hofi. Það gerði hún eftirminnilega þegar hún sigraði Söngkeppni VMA 2013. Frænka hennar, Sunna Björk, hefur ekki eins mikið látið til sín taka opinberlega í söngnum, en ætti sannarlega að gera það, því hún hefur frábæra rödd og hefur alla burði til þess að ná langt.