Þrjú fagfélög gefa nemendum grunndeildar málm- og véltæknigreina í VMA vinnugalla
Félag málmiðnaðarmanna Akureyri (FMA), Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) og Félag iðn- og tæknigreina (FIT) hafa tekið höndum saman og fjármagnað kaup á vönduðum heilgöllum til að gefa öllum nemendum grunndeildar málm- og véltæknigreina í VMA, sem eru á fimmta tuginn. Þetta er afar höfðingleg gjöf félaganna og er til marks um hlýjan hug og stuðning þessara fagfélaga við málmiðnaðarnámið í VMA og nemendur.
Gallarnir eru merktir gefendum og kom Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, í skólann sl. miðvikudag og færði nemendum að gjöf. Við það tækifæri voru þessar myndir teknar.
Það er sannarlega ánægjulegt að sjá nemendur grunndeildar málm- og véltæknigreina í sama vinnuklæðnaði í kennslustundum. Annan búnað, sem nauðsynlegur er í grunndeildinni, hafa nemendur keypt; öryggisskó, hlífðargleraugu og vettlinga. Þessar myndir voru teknar í kennslustund í grunndeildinni í gær þegar Hörður Óskarsson og Stefán Finnbogason voru að kenna nemendum ýmsa galdra í logsuðu og málmsmíði.
VMA þakkar Félagi málmiðnaðarmanna Akureyri, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og Félagi iðn- og tæknigreina fyrir þennan góða stuðning við grunndeild málm- og véltæknibrautar VMA og nemendur hennar.