Þrjú systkini frá Dalvík brautskráðust saman!
Það verður að teljast mjög sérstakt að þrjú systkini brautskráist í einu frá sama skólanum, en það gerðist einmitt þann 20. desember sl. þegar VMA brautskráði 80 nemendur. Systkinin koma frá Dalvík og heita Kristján, Anna og Brynjar Árnabörn. Þeir bræður brautskráðust sem rafvirkjar en Anna sem stúdent af náttúrufræðibraut.
Það var síður en svo markmiðið í upphafi þegar þau systkinin hófu nám við VMA að ljúka því á sama degi, en það gerðist nú samt. Kristján er þeirra elstur, fæddur 1986, Anna er þremur árum yngri og Brynjar er yngstur, fæddur 1990. Upphaflega hóf Kristján nám í VMA á tölvufræðibraut árið 2004, en hann segist ekki hafa fundið sig í því námi og hætt fljótlega. Tók síðan upp þráðinn aftur haustið 2009 og lauk rafvirkjuninni á sjö önnum. Segja má að Kristján hafi náð Brynjari bróður sínum, sem hóf nám í rafvirkjun 2008, en hanr hafði árið áður verið á almennri braut í VMA. Anna hóf síðan nám í VMA árið 2007 á náttúrufræðibraut og stundaði námið með hléum þar til hvíti kollurinn fór á loft fyrir jólin.
„Ég get ekki neitað því að þetta er sérstakt og í raun svolítið skondið. Undir það síðasta vorum við farin að eygja þann möguleika að þau myndu öll ljúka náminu á sama tíma. Það er virkilega gaman að það skyldi ganga eftir,“ segir Halldóra Jóhannsdóttir, móðir þeirra systkinanna.
„Já, þetta var mjög gaman. Anna systir okkar hótaði okkur því að hún myndi klára síðasta vor, en það gekk ekki eftir og hún varð að sætta sig við að klára á sama tíma við bræðurnir,“ sagði rafvirkinn Kristján Árnason og hló. Hann neitar því að ríkt hafi samkeppni á milli þeirra bræðranna í rafvirkjanáminu, en segir miklu fremur að þeir hafi stutt hvor annan í náminu. Og leiðir þeirra munu áfram liggja saman því báðir hafa þeir ráðið sig í vinnu í sínu fagi hjá fyrirtækinu Launafli ehf. á Reyðarfirði. „Við erum bara að flytja austur núna um helgina og hefjum störf fyrir austan eftir helgi,“ segir Kristján og er bjartsýnn á framhaldið. Anna er núna að leita sér að vinnu og hyggur á frekara nám síðar, þótt á þessari stundu sé ekki ljóst hver sú námsbraut verður.
Halldóra móðir þeirra starfar sem matráður á leikskólanum Krílakoti á Dalvík en Árni faðir þeirra starfar í Sæplasti. Auk þess að elda ofan í börnin og starfsmenn á Krílakoti er hún einnig í námi. Það hóf hún sl. haust í VMA og Símey. Hún fór í gegnum svokallað raunfærnimat í Símey – Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar – og fékk metna margra ára vinnu í eldamennskunni inn í matartækninámið í VMA. Hún var í fjarnámi við VMA á haustönn og fer nú á vorönninni á fullt í matartækninámið. Grunnfögin tekur hún í gegnum Símey á Dalvík – íslensku, dönsku, ensku, stærðfræði og upplýsingatækni, en starfstengdu fögin tekur hún í VMA. „Þetta er mjög gaman, en ég neita því ekki að það var töluvert átak að drífa sig í nám með fullri vinnu. Ég hafði alltaf ætlað mér að fara í nám, en ég vissi bara ekki í hvað. En þegar þessi möguleiki bauðst, ákvað ég að drífa mig af stað og sé ekki eftir því. Þetta er vissulega mikil áskorun en jafnframt skemmtilegt,“ segir Halldóra Jóhannsdóttir.
Á meðfylgjandi mynd er fjölskyldan frá Dalvík. Frá vinstri: Fjölskyldufaðirinn Árni Stefánsson, Kristján, Anna, Brynjar og móðirin Halldóra Jóhannsdóttir. Mynd: Hilmar Friðjónsson.