Þyrfti stundum fleiri klukkutíma í sólarhringinn
„Ég útskrifaðist fyrst úr VMA árið 2018. Ég fór á sínum tíma í grunndeild matvæla hérna í skólanum og hélt áfram námi til stúdentsprófs af félagsfræðibraut, hélt sem sagt ekki áfram í kokkinn þó svo að það hafi upphaflega verið í mínum plönum. Ári síðar fór ég aftur í VMA og lærði matartækni. Úr því námi útskrifaðist ég árið 2021. Í það nám fór ég til þess að stytta mér leiðina í matreiðslunáminu sem ég er loksins kominn í núna. Ég er sem sagt í námi í VMA í þriðja skipti,“ segir Patrekur Óli Gústafsson, sem er einn af tíu nemendum í 2. bekk í matreiðslu sem er kenndur núna í skólanum í fimmta skipti.
Patrekur, sem er fæddur 1999 og því á 25. aldursári, er fæddur og uppalinn á Dalvík en býr á Hvammstanga. Faðir hans, Gústaf Adolf Þórarinsson, rak um tíma veitingastaðinn Við höfnina á Dalvík og var auk þess með skólamötuneyti í mörg ár. Frá unga aldri lagði Patrekur föður sínum lið við eitt og annað á veitingastaðnum. Hann fékk kokkinn því í æð, ef svo má segja, og strax á unga aldri kom ekkert annað til greina.
Patrekur Óli hefur á undanförnum árum starfað á veitingastaðnum Sjávarborg, sem er við hafnarsvæðið á Hvammstanga og hefur getið sér gott orð fyrir skemmtilega staðsetningu og góðan mat. Mikið er um að vera á sumrin, þegar ferðamennirnir streyma til landsins, en öllu rólegra er yfir vetrarmánuðina og þá sér Sjávarborg um skólamötuneyti fyrir grunnskólann. Á meðan á matreiðslunáminu í VMA stendur er Patrekur Óli í leyfi frá störfum á Sjávarborg og starfar núna á Strikinu á Akureyri þar sem hann er á samningi.
Á sínum tíma, þegar Patrekur var í námi í VMA, vann hann um tíma á Bautanum og bakaði pizzur á Bryggjunni. Leysti síðan föður sinn af í mötuneytinu á Dalbæ á Dalvík. Síðan lá leiðin til Hvammstanga fyrsta sumarið í Covid 19 faraldrinum þar sem Patrekur ætlaði að vera bara í þrjá mánuði en úr þeim tíma hefur teygst og enn býr hann þar. „Ég byrjaði á Strikinu hér á Akureyri í ágúst sl. og hef verið að keyra á milli Hvammstanga og Akureyrar. Það hafa svona 60-70 klukkustundir farið í akstur á milli í mánuði. Vinni ég marga daga í röð hef ég afdrep á Dalvík. En í vaktafríum keyri ég vestur á Hvammstanga. Ég kann vel við mig þar. Það eru forréttindi að búa á litlum stað og geta labbað í vinnuna. Ég vonast til þess að komast í þriðja bekkinn í matreiðslu strax og hann verður næst í boði og ljúka sveinsprófi í faginu,“ segir Patrekur.
En hvað dregur Patrek Óla í matreiðsluna? Fjölbreytnin, segir hann. Aldrei sé verið að gera það sama. Félagsskapurinn sé líka mikils virði. Til þess að árangurinn sé góður sé lykilatriði að vera í góðu sambandi og vinna þétt með vinnufélögunum. Oft sé mikill hraði, afgreiða þurfi fjölda pantana á stuttum tíma. Því sé mikilvægt að skipuleggja vaktina vel, það sé lykilatriði til þess að hlutirnir gangi upp.
Fyrir utan sína daglegu vinnu á veitingastöðum, núna á Strikinu á Akureyri, segist Patrekur taka að sér að undirbúa og sjá um veislur af ýmsum toga. Framundan eru tvö stór þorrablót sem Patrekur sér um matinn fyrir, annars vegar 140 manna blót í Víðihlíð í Víðidal 3. febrúar og viku síðar 220 manna blót í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Þetta er auðvitað heilmikið mál, að panta matinn úr öllum áttum, ákveða matarmagnið, útbúa matinn og setja upp hlaðborð. Patrekur Óli dregur ekki dul á að stundum væri gott að hafa fleiri klukkutíma í sólarhringnum en þá gildi bara að vera vel skipulagður.