Til heiðurs kærustunni og frændanum
Sigurður Heimir Guðjónsson er nítján ára Akureyringur. Hann útskrifast í vor af listnámsbraut VMA og á að þessu sinni myndir vikunnar í anddyri skólans – að austan.
Og ein mynd er Sigurði Heimi ekki nóg, hann er með tvær myndir, önnur þeirra er akrílmynd á striga og hin er akrílmynd á tréplötu. Sú fyrrnefnda er andlitsmynd og er módelið kærastan hans, Kristrún Hrafnsdóttir, sem einnig er á listnámsbraut VMA. Hin myndin er litskrúðug mynd í anda Davíðs Arnar Halldórssonar, myndlistarmanns, frænda Sigurðar Heimis.
„Þegar ég fór á listnámsbrautina vissi ég ekki hvað ég vildi læra, en ákvað að slá til því ég hef alltaf haft áhuga á listum. Þetta hefur verið góður tími og ég er ánægður með námið. Ég hef lært að maður þarf ekki að vera algjör sérfræðingur á þessu sviði til þess að geta notið sín. Við fáum mikla hvatningu til þess að takast á við ögrandi verkefni. Það finnst mér mjög mikilvægt,“ segir Sigurður Heimir og bætir við að hann stefni að því að fara í Margmiðlunarskólann í Reykjavík og læra þar tölvuleikjahönnun, en það er einmitt viðfangsefni hans í lokaverkefni á myndlistarbrautinni í listnáminu í VMA. „En ég reikna ekki með að fara strax í haust, ætli ég vinni ekki til að byrja með - maður verður að hafa efni á því að vera fyrir sunnan.“