Tjaldið frumsýnt annað kvöld
Yggdrasil – leikfélag VMA – frumsýnir Tjaldið eftir Hallgrím Helgason í salnum á fjórða hæð Rósenborgar (Skólastíg 2) annað kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 20.30. Leikstjórar eru Pétur Guðjónsson og Jóhanna Guðný Birnudóttir. Rösklega 20 manns koma að sýningunni.
Viðfangsefni „Tjaldsins“ er útihátíð og afleiðingar atburðar sem þar á sér stað. Verkið er áleitið og vekur til umhugsunar.
Auk frumsýningarinnar annað kvöld eru fjórar sýningar ákveðnar; laugardaginn 13. og sunnudaginn 14. apríl kl. 16 báða dagana og miðvikudagskvöldið 17. og fimmtudagskvöldið 18. apríl kl. 20.30. Allar sýningarnar að einni undanskilinni verða í salnum á fjórðu hæð Rósenborgar. Laugardagssýningin verður á annarri hæð í Rósenborg.
Laugardags- og sunnudagssýningin verður hluti af leiklistarhátíðinni Þjóðleik, sem fram fer á Akureyri um helgina, en þar koma fram átta leikhópar úr framhalds- og grunnskólum af Norðurlandi. Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks á landsbyggðinni, sem Þjóðleikhúsið hefur frumkvæði að. Þekkt íslensk leikskáld eru fengin til að skrifa krefjandi og spennandi verk fyrir 13-20 ára leikara sem svo eru sett upp í hinum ýmsu byggðum landsins. Eitt af þessum verkum að þessu sinni er einmitt Tjaldið eftir rithöfundinn Hallgrím Helgason.
„Já, ég held að við séum bara algjörlega tilbúin með sýninguna. Að mínu mati er þetta orðið alveg frábært,“ segir Jón Stefán Kristinsson, formaður Yggdrasil. Hann segir að vissulega sé smá frumsýningarskjálfti farinn að gera vart við sig. „Það er bara nauðsynlegur hluti af þessu. Maður má ekki vera alltof slakur yfir þessu,“ bætir hann við.
Jón Stefán tekur við miðapöntunum í síma 863 1778 milli kl. 16 og 19. Einnig verða miðar seldir við innganginn. Verð fyrir nemendur í skólafélögum VMA og MA er kr. 1000 en 1500 krónur fyrir aðra. Húsið verður opnað hálftíma fyrir sýningu.