Töfraheimur rafeindarása
„Það sem við skoðum í þessum áfanga er góður grunnur fyrir nemendur, ekki síst þá sem fara áfram í rafeindavirkjun,“ segir Magni Magnússon, kennari í rafdeild VMA, en þegar litið var inn í kennslustund til hans voru nemendur á þriðju önn í grunndeild rafiðna niðursokknir í svokölluð rásahermiforrit, sem notuð eru til þess að teikna og prófa einfaldar rafeindarásir. Áfanginn veitir Verktækni grunnnáms eða Tækjasmíði 2.
Fyrir leikmann, sem ekkert vit hefur á rafeindarásum og virkni þeirra, virkar það sem nemendur í grunndeild rafiðna eru að fást við mjög flókið og illskiljanlegt. Þetta er áfangi sem nemendur taka á þriðju önn grunnnáms rafiðngreina og hann byggir á því sem nemendur höfðu glímt við á fyrri stigum námsins. Með öðrum orðum; byggt er ofan á þá þekkingu sem nemendur hafa áður öðlast og í þessu tilfelli er um skemmtilegt samstarf að ræða við Fab Lab smiðjuna, sem er til húsa í VMA. Nemendur læra m.a. hvernig skematískar teikningar eru færðar yfir á prentform og íhlutir prentaðir út í Fab Lab. Allt er þetta liður í þjálfun nemenda í samsetningu og smíði rafeindatækja.
Verðandi rafvirkjar og rafeindavirkjar eru fjórar fyrstu annirnar í námi sínu í VMA í grunndeild rafiðna og að þeim loknum velja nemendur annað hvort rafvirkjun eða rafeindavirkjun. Sumir nemendur ljúka reyndar bæði rafvirkjun og rafeindavirkjun og auk þess geta nemendur, ef þeir kjósa svo, tekið viðbótar bóklega áfanga til stúdentsprófs.
Þeir nemendur sem velja að fara í rafvirkjun geta annað hvort tekið námið á hefðbundinn hátt, að hluta í skóla og að hluta á samningi hjá meistara, en einnig býðst svokölluð skólaleið og þá tekur námið í heildina sjö annir.
Rafeindavirkjunin er þriggja anna nám eftir grunndeildina, í heildina sjö annir.