Tóku þátt í Nord+ verkefni í Porvoo í Finnlandi
Í liðinni viku voru þrír nemendur af viðskipta- og hagfræðibraut ásamt Katrínu Harðardóttur kennara í Porvoo í Finnlandi til þess að taka þátt í fyrsta hluta Nord+ nemendasamstarfsverkefnis sem tekur m.a. til frumkvöðlastarfs. Einnig er horft til sjálfbærni og samfélags án aðgreiningar, notkun upplýsingatækni og um ýmislegt fleira er fjallað er lýtur að hinu daglega lífi fólks. Í stuttu mál má segja að verkefnið beinist að því að bæta líf minnihlutahópa eða þeirra sem á einhvern hátt búa við skert lífsgæði.
Í þessum fyrsta hluta verkefnisins í Porvoo var áherslan á samskipti kynslóða, hvað yngri kynslóðin geti lært af þeim eldri og öfugt og hvernig kynslóðir geti miðlað margbreytilegri kunnáttu sinni og notið samvista. Katrín Harðardóttir tók þessar myndir í ferðinni til Porvoo.
Verkefnið er til tveggja ára og eru þátttakendur í því, auk VMA, framhaldsskólar í Danmörku (DK-Aarhus Tech), Svíþjóð (Nyköpings gymnasium), Finnlandi (Careeria í Poorvo), Eistlandi (Lääne-Viru College) og Litháen (Vilnius Vocational Education and Training Centre of Technology and Business).
Ólík viðfangsefni verða í þessum sex heimsóknum eða málstofum. Þegar fulltrúar skólanna koma í heimsókn í VMA á næsta ári verður áherslan á eldra fólk og hvernig unnt sé að auka lífsgæði þess.
Nemendurnir sem fóru til Porvoo eru Kristján Bjarki Gautason, Hörður Hlífarsson og Valur Sudee Viðarsson. Þeir voru sammála um að ferðin hafi tekist mjög vel og verið þeim lærdómsrík í alla staði. „Það voru þrír til fjórir nemendur frá hverjum skóla og hópum var skipt í smærri hópa. Hverjum hópi var úthlutað verkefni sem hann átti að leysa og kynna síðan niðurstöður sínar. Við vorum einnig með kynningu á VMA og Íslandi. Við töluðum ensku en spreyttum okkur einnig aðeins í dönsku þegar við vorum að ræða við Svíana og Danina. Við fórum út á mánudag í síðustu viku og dagskráin í Pervoo, sem er í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Helsinki, var frá átta til fjögur frá þriðjudegi til fimmtudags. Síðastliðinn föstudag komum við síðan heim. Þetta var mjög skemmtilegt og það var áhugavert að fá innsýn í ólíka menningu og venjur í hinum löndunum,“ sögðu Kristján, Hörður og Valur.
Næstu fundir í þessu verkefni verða eftir áramót, í Svíþjóð í byrjun febrúar, síðan aftur fyrstu vikun í maí í Eistlandi. Að ári liðnu, snemma í október, verður fundur í verkefninu í VMA, í febrúar 2021 verður verkefnisfundur í Danmörku og síðasti fundurinn verður í Litháen í apríl 2021.