Tóku þátt í Ungmennaþingi Evrópusambandsins í Strassborg
Um miðjan október fóru tveir nemendur í VMA, Sveinn Brimar Jónsson og Hildur Helga Logadóttir, ásamt Valgerði Dögg Jónsdóttur kennara og Hildi Friðriksdóttur, sem heldur utan um erlend samskipti í VMA, á Ungmennaþing ESB í Strassborg í Frakklandi. Skólinn naut styrks til fararinnar sem var í tengslum við Erasmus samstarfsverkefni sem skólinn tekur nú þátt í. Verkefnið kallast VET 4 Change og tekur til náms í dreifðum byggðum og hvernig skapa megi tækifæri fyrir ungt fólk. Þar sem Ungmennaþing Evrópusambandsins fór fram helgina fyrir fyrsta fund verkefnisins var ákveðið að verja hluta styrkupphæðarinnar til verkefnisins til þess að senda fulltrúa þátttakökulandanna á Ungmennaþingið í Strassborg og gefa þeim með því tækifæri til þess að koma á framfæri rödd ungs fólks sem býr í dreifðum byggðum.
Dagskrá heimsóknar Sveins Brimars, Hildar Helgu, Hildar Friðriks og Valgerðar Daggar til Strassborgar hófst sl. föstudag með því að ungmenni frá Rúmeníu, Frakklandi og Íslandi hittust og báru saman bækur sínar. Samtalið fór fram á ensku. Út úr þessum samræðum komu þrír áherslupunktar sem ungmennin frá þessum þremur löndum komu á framfæri við þingmann á Evrópuþinginu. Í þeim var lögð áhersla á jafnt aðgengi að námi óháð búsetu, að tækifærin væru jöfn óháð kyni og í þriðja lagi að ungt fólk hefði tækifæri til þess að tjá sig og hafa áhrif í samfélaginu. Fulltrúar landanna þriggja kynntu þessar áherslur fyrir þingmanni á Evrópuþinginu (þingið er að hluta í Strassborg og að hluta í Brussel í Belgíu) og kom í hlut Sveins Brimars að kynna fyrir honum mikilvægi þess að tryggja jafnt aðgengi að námi óháð búsetu. Sveinn Brimar segir að í þessum efnum hafi verið tekið dæmi um Grímsey, þar sem grunnskólakennsla hefur lagst af og nemendur hafa því þurft að fara í land með fjölskyldum sínum til þess að fá lögboðna menntun.
Eftir hádegi á föstudag fóru fulltrúar VMA í skoðunarferð í Evrópuþingið en hápunktur ferðarinnar var síðan á laugardag þegar tækifæri gafst til þess að taka þátt í málstofu og viðburðum á Ungmennaþingi ESB. Umræðuefnið var atvinna og menntun eftir covid-faraldurinn. Fulltrúar frá Evrópuþinginu höfðu framsögu.
Sveinn Brimar og Hildur Helga eru sammála um að ferð þeirra til Strassborgar hafi verið mikil upplifun og eitthvað sem þau hefðu alls ekki viljað missa af.
„Ég get alveg viðurkennt að það var svolítið óraunverulegt að vera þarna í þessum stóra fundarsal Evrópuþingsins. Þetta var mjög fróðlegt og mikil upplifun og ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í þessu,“ segir Sveinn Brimar og bætti við að grímuskylda hafi verið í þessum opinberu byggingum og krafist hafi verið bólusetningarvottorðs. Það sama hafi gilt um veitingastaði í Frakklandi en þegar gestir hafi sest til borðs á veitingastöðum sé heimilt að taka niður grímuna.
„Óneitanlega var maður svolítið að stíga út fyrir þægindarammann með því að taka þátt í þessu en þetta var bara geggjuð upplifun,“ segir Hildur Helga Logadóttir, en hún býr í Hörgársveit og var nýlega fengið til þess að taka þátt í ungmennaráði í sínu sveitarfélagi.