Fara í efni

Dómari í rafeindavirkjun á World Skills í Lyon

Þórhallur Tómas Buchholz, kennari í rafiðngreinum í VMA.
Þórhallur Tómas Buchholz, kennari í rafiðngreinum í VMA.

Þórhallur Tómas Buchholz, kennari í rafiðngreinum í VMA, var einn af dómurum í keppni í rafeindavirkjun eða electronics á WorldSkills 2024 – heimsmeistaramóti iðngreina – sem haldið var í Lyon í Frakklandi dagana 10. til 15. september sl. Fleiri íslenskir dómarar tóku þátt í World Skills en hins vegar engir keppendur. Þessi keppni er haldin annað hvert ár en hitt árið er haldið Evrópumót – EuroSkills. Í þá keppni sendir Ísland jafnan keppendur. Síðasta EuroSkills var haldin á síðasta ári í Gdansk í Póllandi og þar átti VMA keppanda, Írisi Fönn Clemmensen, sem keppti í hársnyrtiiðn og sömuleiðis voru þar nokkrir kennarar úr VMA, m.a. Tómas Buchholz.

Tómas dregur ekki dul á að það hafi verið mikil upplifun að taka þátt í World Skills í Lyon enda sé þetta risastór keppni með fjölda keppenda víðs vegar að úr heiminum úr hinum ýmsum iðngreinum og keppnin dragi auk þess að sér fjölda gesta. Þetta sé því risastór viðburður.

Tómas segir það hafa verið mikinn lærdóm fyrir sig að sjá hvernig staðið sé að málum við slíka keppni og kynnast því til hvers sé ætlast af keppendum og dómurum, hvernig mati á verkefnum keppenda sé háttað o.s.frv.

Keppendur í rafeindavirkjun komu víða að – t.d. frá Kína, Taiwan, Indlandi, Japan, Singapúr, S-Kóreu, Brasilíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Sviss, Austurríki, Þýskalandi og Frakklandi.

Tómas segir þessa reynslu og upplifun nýtast sér afar vel í kennslunni í VMA, bæði hvað varðar skipulag kennslunnar og til hvers sé hægt að ætlast af nemendum. Að fá tækifæri til þess að sjá keppni í öllum þessum iðngreinum á einum og sama staðnum undirstriki mikilvægi þeirra í samfélaginu og veki til umhugsunar hversu mikilvægt sé að halda því stöðugt á lofti að iðnmenntun sé síður en svo á lægri stalli en stúdents- og háskólapróf. Íslenskir iðnaðarmenn standist svo sannarlega kollegum út um allan heim snúning. Þá nefnir Tómas hversu mikilvægt það sé að taka þátt í slíkri keppni til þess að kynnast kollegum út um allan heim og stækka þannig tengslanetið. Það sé ómetanlegt til þess að geta miðlað nýjum og skemmtilegum hlutum í kennslunni til nemenda.

EuroSkills 2025 – Evrópumót iðngreina – verður haldið í Herning í Danmörku í september á næsta ári. Nokkuð ljóst er að þar verða bæði keppendur og starfsmenn frá VMA.