Fara í efni

Tómt vesen í Ketilhúsinu

Sýning listnámsnema ber heitið Tómt vesen.
Sýning listnámsnema ber heitið Tómt vesen.

Við lok hverrar annar hefur verið fastur liður að nemendur á listnáms- og hönnunarbraut VMA sýni lokaverkefni sín á sýningu í Listasafninu á Akureyri. Vegna Covid 19 faraldursins var ekki unnt að halda sýningu við lok vorannar en ákveðið þess í stað að efna til sýningar við lok þessarar annar þar sem lokaverkefni nemenda á vorönn 2020 og haustönn 2020 yrðu til sýnis.

Vitanlega var ekki vitað hvort unnt yrði að halda sýninguna núna undir lok nóvember, eins og venja er til, vegna óvissu um þróun veirufaraldursins. Þess var vænst að unnt yrði að hafa sýninguna opna fyrir almenning en vegna núgildandi sóttvarnareglna er ljóst að af því getur ekki orðið.

Engu að síður var sýningin sett upp í Ketilhúsinu og á nafn hennar vel við – Tómt vesen. Á sýningunni sýna nemendur fjölbreytta list sína. Hver og einn þeirra nemenda sem eiga verk á sýniungunni má bjóða sínum nánustu að sjá sýninguna, innan þeirra marka sem sóttvarnareglur kveða á um.

Eftirtaldir nemendur eiga verk á sýningunni:

Þorsteinn Viðar Hannesson
Titill: Maður er og maður skal vera.
Efni: Hænsnanet og nælon dýft í lím. 
Um verkefnið: Maður í miðjum bardaga tilverunnar. Hann berst af öllum lífs og sálar kröftum fyrir það sem hann trúir á og finnur tilgang sinn í daglegu baráttu sinni við lífið.

María Helena Mazul
Titill: Engillinn okkar 
Efni: Ljósmyndir prentaðar á þunna plötu.
Um verkið: Ljósmyndasýning sem ég gerði til minningar um besta og fallegasta hund í heimi.

Sigríður Björk Hafstað
Titill: Rússíbaninn.
Efni: Akríl á striga. 
Um verkið: Myndirnar túlka ýmsar óþægilegar tilfinningar sem senda áhorfandann í nokkurs konar tilfinningarússíbana. 

Brynjar Mar Guðmundsson
Titill: Urður, Verðandi og Skuld
Efni: Akríl á striga

Agnes Sara Ingólfsdóttir
Titill: Í ljósi konungs 
Efni: Alcohol based pennar/tússlitir með hvítum gelpenna á pappír.
Um verkið: Verkið var byggt í kringum gullrammann sem ég valdi alveg fyrst og byggði síðan umhverfi í kring og sá síðan myndefnið sjálft fyrir mér. Concept-ið af myndinni er byggt á því að þetta líti út eins og gamalt verk sem myndi hanga í veiðikofa 1850-1930. Útfært með þungum stíl og á ekki að vera realismi.

Viktor Hugi Júlíusson
Titill: Change.
Efni: Tónlistarmyndband.
Um verkið: Sýnir mann sem er að leita að betri stað (utopiu).

Guðný Birta Pálsdóttir
Titill: Vindfari.
Efni: Akríl á striga.
Um verkið: Verkið mitt er hvítur, fjaðraður dreki að fljúga yfir skýin og sjóinn. Það sem ég vildi sýna með málverkinu er flæði og frelsi. Ég vildi hafa það eins og þú sért fljúgandi fyrir ofan og horfir svo niður. 

Kentwald Genesis Rico Capin
Titill: Hvíslandi stjörnur.
Efni: Akríl á striga.
Um verkið: Verkefnið mitt er mjög innblásið af impressionisma og listastíl Naohisa Inoue. Verkið er tilraun til að tjá tilfinninguna fyrir æðruleysi.

Andri Rósinberg Antonsson
Titill: Hugsun í draumi.
Efni: Járn, tré og steypa
Um verkið: Verkefni mitt var að nota allt sem er í umhverfi mínu eins og járn, steypa og tré. Ég reyndi að nota sem minnstan pening í verkið. Þegar ég ákvað að gera þetta verk kom það til mín í draumi, hvaða form ég ætti að nota og hvaða efni. Þegar ég síðan byrjaði á verkinu bættust nokkrir hlutir við sem hjálpuðu því mjög mikið. 

Arndís Eva
Titill: Hóra.
Efni: Ljósmyndir.
Um verkið: Hóra er orð sem flest allar stelpur hafa verið kallaðar einhvern tímann á ævinni. Hóra er misnotað orð sem er notað í vitlausri þýðingu. Ég á ekki skilið að vera kölluð hóra fyrir hvernig ég ber mig eða hverskonar myndir ég tek af líkamanum MÍNUM! Ég á ekki skilið að vera kölluð hóra fyrir ákvarðanir mínar og ég á ekki skilið að vera kölluð hóra vegna afbrýðisemi frá öðrum, því ekki myndir þú segja þetta við karlmann!

Gunnar Björn Ólafsson
Titill: Árstíðir.
Efni: Vatnslitur á pappír.
Um verkið: Pælingin mín í þessum myndum var að gera verk sem höfðu þemað tré og árstíðirnar.

Sóley Dögg Mikaelsdóttir
Titill: Leiðist/Bored.
Efni: Teiknimynd og innsetning.
Um verkið: Verkið er stutt "animation" sem sýnir draumaheiminn sem maður fer að hugsa um þegar manni leiðist og fer að teikna.

 -----

Af framangreindum nemendum ljúka Arndís Eva, Andri Rósinberg, Kentwald Genesis, Sóley Dögg og Gunnar Björn námi sínu núna í desember en sl. vor útskrifuðust Þorsteinn Viðar, María Helena, Sigríður Björk, Brynjar Mar, Agnes Sara, Viktor Hugi og Guðný Birta.