Tónlistin heillar
Kristín Tómasdóttir vakti verðskuldaða athygli á Sturtuhausnum – söngkeppni VMA í síðustu viku með flutningi á frumsamda laginu sínu My Simphony. Lagið var eina frumsamda lagið í Sturtuhausnum og varð Kristín í þriðja sæti í keppninni.
Kristín er á þriðja ári sínu í VMA. Hún hóf þar nám haustið 2014 á listnámsbraut en færði sig yfir á náttúrufræðibraut haustið 2015. Auk námsins í VMA stundar hún söngnám í Tónlistarskólanum á Akureyri undir handleiðslu Heimis Bjarna Ingimarssonar. Hún segir að tónlistin sé sér mikilvæg og hún verji flestum frístundum í þágu hennar. Auk söngnámsins er hún í kvennahljómsveitinni Herðubreið, sem var stofnuð fyrir um einu ári og spilar að stærstum hluta frumsamda tónlist kvennanna í hljómsveitinni, þar á meðal lög Kristínar. Herðubreið segir Kristín að sé fyrst og fremst - eða í það minnsta til þessa – tónleikahljómsveit, sem hefur komið fram við ýmis tækifæri, bæði á Akureyri og utan bæjarins.
Kristín segist hafa mjög gaman af því að semja tónlist og hugmyndir að lögum „poppi upp“, eins og hún orðar það, við hin ýmsu tækifæri. Við flest lögin gerir hún sömuleiðis texta. Það á t.d. við um My Simphony, sem hún segist hafa samið í fyrra. Hún segist hafa verið steinhissa á því að lenda í þriðja sæti í Sturtuhausnum, hún hafi alls ekki átt von á því að lenda svo ofarlega. „Ég hef aldrei verið jafn stressuð á sviði og þegar ég söng lagið mitt í Söngkeppni VMA,“ segir hún og hlær.
Kristín vill á þessu stigi málsins ekki spá fyrir um framtíðina en segist hafa hug á að gera meira af því að semja tónlist. Tónlist segir hún að hafi heillað sig frá því hún var barn, hún segist hafa horft með aðdáun á Idol-söngkeppnina og látið sig dreyma um að taka einhvern tímann þátt í henni eða einhverju sambærilegu.