Tveir VMA-nemar til Bandaríkjanna næsta sumar
Tveggja nemenda í VMA bíður áhugavert ferðalag til Bandaríkjanna í júlí næsta sumar. Ekki liggur fyrir hvaða tveir nemendur detta í lukkupottinn en það skýrist fljótlega eftir áramót. Um er að ræða boðsferð á vegum Oddfellowreglunnar sem hefur á ári hverju síðan 1949 boðið völdum hópi ungmenna víða að til þess að heimsækja höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna og kynna sér starfsemi þeirra. Verkefnið heitir „United Nations Educational Pilgrimage for Youth“.
Markmiðið með þessu verkefni er að fá ungt fólk til að kynna sér starfsemi Sameinuðu þjóðanna og skapa grundvöll til skoðanaskipta um menntun, stjórnmál og alþjóðleg samskipti, bjóða þátttakendum að skoða merka staði í Bandaríkjunum og Kanada, hvetja til jákvæðrar þátttöku í félagsmálum og koma á vináttutengslum milli þátttakenda.
Fyrstu árin var eingöngu bandarískum ungmennum á síðasta ári í framhaldsskóla boðið í slíkar kynnisferðir, en síðar náði verkefnið einnig til annarra landa þar sem Oddfellow-reglan starfar. Í ár er Ísland með í fjórða skipti. Val á þátttakendum hér á landi fer fram með þeim hætti að einhver einn framhaldsskóli er valinn og nemendum hans með góðan grunn í ensku er boðin þátttaka. Í ár var VMA valinn til þátttöku og hafa um 100 nemendur í áfanganum ENS303 spreytt sig á ritgerðasmíð þar sem Sameinuðu þjóðirnar og undirstofnanir þeirra eru umfjöllunarefnið.
Nú hafa níu bestu ritgerðirnar verið valdar og næsta skref er í höndum valnefndar í byrjun næsta árs. Hún fer yfir ritgerðirnar níu, ræðir við höfunda þeirra og í kjölfarið verða tveir úr þessum hópi níu nemenda hópi valdir til að fara til Bandaríkjanna dagana 11. - 24. júlí 2015. Fyrst liggur leiðin til Philadelphia í Pennsylvaníu og þaðan til New York. Farið verður í kynnisferð í byggingu Sameinuðu þjóðanna, söfn og merkir staðir heimsóttir og farið verður á söngleik á Broadway. Þátttakendur taka þátt í ræðukeppni, þar sem ræðulengd verður 3-5 mín, og verður fundarefnið kynnt þegar til Bandaríkjanna verður komið, en nemendur þurfa að nýta sér þær upplýsingar sem fengar eru úr kynnisferðum, fyrirlestrum og samræðum. Flug og uppihald verður þátttakendum að kostnaðarlausu, það eina sem þeir þurfa að hafa er vasapeningur.
Þeir níu VMA-nemar sem eru nú þegar komnir í undanúrslit eru: Sigurður Tómas Árnason, Margrét Steinunn Benediktsdóttir, Baldur Helgi Árnason, Arnbjörg Hlín Áskelsdóttir, Kristín Anna Sævarsdóttir, Eydís Rachel Missen, Úlfur Logason, Þórdís Alda Ólafsdóttir og Heimir Pálsson.
Oddfellowreglan var stofnuð í Bandaríkjunum 26. apríl 1819 og hefur tilgangur reglunnar alltaf verið að annast sjúka og munaðarlausa, jarða látna og efla vinattu meðal manna. Kjörorð Oddfellowreglunnar var og er vinátta, kærleikur, sannleikur og er það undirstrikað með logói hennar, þremur samtengdum hlekkjum. Frá Bandaríkjunum barst reglan til Evrópu, fyrst til Þýskalands og síðar til Norðurlandanna upp úr 1870. Hér á landi hófst starfsemi Oddfellowreglunnar þann 1. ágúst 1897 í kjölfar þess að danskir Oddfellowar stóðu að söfnun fjármuna til að reisa spítala fyrir holdsveika hér á landi. Oddfellowstarf á Akureyri hófst svo tuttugu árum síðar eða 26. apríl 1917.
Haukur Jónsson kennari við VMA er tengiliður Oddfellowreglunnar við skólann í tengslum við „United Nations Educational Pilgrimage for Youth“ og hitti hann ásamt Jónasi Jónssyni enskukennara á dögunum fjóra af nemendunum níu sem koma til greina að fara til Bandaríkjanna næsta sumar. Greindi Haukur nemendunum frá starfi Oddfellowreglunnar og umræddu verkefni. Fór ekkert á milli mála að nemendurnir eru spenntir að vita um lokaniðurstöðu valnefndar sem liggur fyrir að loknum viðtölum við umrædda níu nemendur eftir áramótin.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Sigurður Tómas Árnason, Haukur Jónsson, Jónas Jónsson, Arnbjörg Hlín Áskelsdóttir, Baldur Helgi Árnason og Margrét Steinunn Benediktsdóttir.