Um 1120 nemendur á haustönn
Í dag hefst kennsla samkvæmt stundaskrá í VMA. Nemendur sóttu stundaskrár sínar í gær, eldri nemendur á Innu en nýnemar mættu í Gryfjuna og fengu stundatöflur sínar afhentar og áttu síðan fundi með umsjónarkennurum sínum. Eins og venja er til er alltaf töluvert um að nemendur þurfi að breyta stundatöflum og má hér sjá upplýsingar um hvernig nemendur gera það.
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari, segir að eins og jafnan í upphafi annar sé í mörg horn að líta til þess að hnýta alla lausa enda saman. Hún segir alltaf jafn gaman að hefja nýja önn og hitta eldri nemendur og bjóða nýnema velkomna í skólann.
Núna á haustönn hefja sem næst 1120 nemendur nám í dagskóla við VMA, þar af um 220 nýnemar, sem verður að teljast ljómandi góða aðsókn. Til viðbótar eru síðan fjarnemar, en skráning í fjarnám stendur yfir til 29. ágúst nk.
Eins og gengur er aðsóknin mismunandi mikil eftir deildum en af verknámsdeildunum er mjög vel bókað á rafiðnaðarbraut, byggingadeild og málmiðnaðarbraut. Byggingadeildin hefur heldur betur verið að rétta úr kútnum undanfarin tvö ár eftir töluverða lægð í efnahagshruninu. Aukinn áhugi á byggingagreinum helst greinilega í hendur við uppgang á þessu sviði í samfélaginu. Þá má nefna að íþróttabraut skólans nýtur vaxandi hylli, sem ætla má að tengist breytingu á fyrirkomulagi námsins. Án nokkurs vafa er uppgangur íþróttabrautar VMA styrkur fyrir það nám sem er í burðarliðnum á þessu sviði í Háskólanum á Akureyri.
Nokkrar breytingar hafa orðið á starfsliði skólans frá síðasta skólaári. Til dæmis eru nokkrir starfsmenn í leyfi en aðrir hafa látið af störfum. Þeirra á meðal er Hjalti Jónsson, sálfræðingur, sem hverfur til annarra starfa. Sú sálfræðiþjónusta sem hann hefur veitt í VMA undanfarin ár hefur sannað gildi sitt og sýnt fram á nauðsyn slíkrar þjónustu. Sigríður Huld skólameistari væntir þess að unnt verði að ráða nýjan sálfræðing til starfa við skólann um næstu áramót.
Fjárhagsstaða VMA var mikið til umræðu á síðasta skólaári. Sigríður Huld segir að eftir sem áður sé skólinn í skuld við ríkissjóð en hins vegar njóti hann fjárframlaga frá ríkinu þannig að unnt sé að standa í skilum frá degi til dags. Hún segir að á næstu tveimur til þremur árum verði leitast við að greiða upp umrædda skuld og því verði fjárhagsstaða skólans áfram þröng, sem aftur gerir skólanum erfitt um vik með nauðsynlega endurnýjun tækjabúnaðar.