Um 180 nemendur nýttu sér sálfræðiþjónustu
Hjalti Jónsson, sálfræðingur, sinnir sáfræðiþjónustu í VMA í 65% starfi og er yfirstandandi skólaár það fjórða sem hann annast þessa þjónustu. Hann segir sálfræðiþjónustu í skólanum hafa fest sig í sessi og mikil þörf sé fyrir hana.
Hjalti hefur tekið saman skýrslu um starf sitt sem sálfræðingur VMA á síðasta skólaári, 2014-2015 og hefur hún verið birt hér á vef skólans.
Í skýrslunni segir Hjalti að þeim nemendum sem nýta sér þessa þjónustu hafi fjölgað jafnt og þétt og fjöldi viðtala aukist að sama skapi. Fyrsta árið sem þessi þjónusta hafi verið í boði hafi 63 nemendur komið í 152 viðtöl í lok haustannar sem gerir 2,1 viðtöl á hvern virkan kennsludag. Til samanburðar segir Hjalti að 97 nemendur hafi komið í 294 viðtöl í lok haustannar 2014 sem gerir 4,45 viðtöl á hvern virkan kennsludag.
Fyrsta árið voru 137 nemendur í viðtölum hjá Hjalta en á síðasta skólaári voru þeir 179, sem er tæplega 31% aukning á milli fyrsta og þriðja árs sem þjónustan hefur verið í boði. „Fjölgun nemenda og viðtala rennir stoðum undir þörf sálfræðings VMA og að nemendur treysti þjónustunni og verði sífellt ófeimnari við að nýta sér hana,“ segir Hjalti Jónsson í skýrslu sinni.
Kvenkyns nemendur notfæra sér sálfræðiþjónustuna í ríkari mæli en karlkyns nemendur, sem er í takti við niðurstöður rannsókna á notkun geðheilbrigðisþjónustu eftir kyni í öðrum löndum.
Sálfræðiþjónustan fólst í eftirfandi þáttum:
- Einstaklingviðtöl fyrir nemendur í vanlíðan af ýmsu tagi (t.d. þunglyndi, kvíðaraskanir, slæmar heimilsaðstæður, ofbeldi, áfengis- og vímuefnamisnotkun).
- Hópmeðferð byggð á hugrænni atferlismeðferð (HAM) fyrir nemendur með væg og miðlungs einkenni kvíða og/eða þunglyndis og lágt sjálfsmat.
- Tilvísanir á viðeigandi stofnanir. Þar sem vandinn var gróflega metinn og nemanda vísað áfram á viðeigandi stofnun.
- Forvarnir og kynning á sálfræðiþjónustunni í formi stuttra fyrirlestra um kvíða og þunglyndi í tímum hjá öllum fyrsta árs nemum.
- Ráðgjöf til handa kennara.
- Samstarf við foreldra ólögráða barna.
Í lok skýrslunnar segir Hjalti m.a.: „Frá fyrstu önn, þar sem sálfræðiþjónusta hefur verið í boði, hefur það komið á daginn að rík þörf er á sálfræðiþjónustu innan veggja VMA. Fyrsta árið nýttu nemendur sem höfðu flust að heiman til þess að stunda sitt nám þjónustuna í meira mæli heldur en nemendur með lögheimili á Akureyri og nærsveitum. Skólaárið 2014-2015 snérist þróunin við og fleiri nemendur með lögheimili á Akureyri eða nærsveitum sóttu þjónustuna en þeir sem eiga lögheimili annars staðar. Sálfræðiþjónustan hefur síðastliðin þrjú skólaár fest sig í sessi og aukinn fjöldi nemenda sem nýta sér þjónustuna sem og aukinn fjöldi viðtala sýnir að þörfin er til staðar og að skömm og fordómar gagnvart þeim sem þurfa á sálfræðiaðstoð að halda er á undanhaldi. Ein ástæða þess gæti verið sú að sálfræðingurinn er sýnilegur í skólanum og komin er hefð og reynsla fyrir því að hafa sálfræðing sem sýnilegan hluta af starfsliði skólans. Það er von skýrsluhöfundar að sálfræðiþjónusta VMA muni halda áfram um ókomin ár og að það starf sem unnið er í VMA sé öðrum skólum til fyrirmyndar.“