Um 200 nemendur pöntuðu VMA/Þórdunu grímur
Grímuskylda er orðin nokkuð almenn, hvort sem um er að ræða skóla, aðrar opinberar stofnanir eða þjónustufyrirtæki. Tveggja metra reglan og gríman eru hugtökin sem eru allsráðandi í samfélaginu, í takt við sóttvarnareglur stjórnvalda. Núgildandi sóttvarnareglur gilda til 17. nóvember nk. en ætla má að eftir þann tíma muni grímunotkun áfram verða nokkuð almenn, í það minnsta á meðan kórónuveiran leikur lausum hala.
Í samfélaginu má sjá grímur í öllum regnbogans litum, sumar eru merktar fyrirtækjum, aðrar íþróttafélögum o.s.frv. Nemendafélagið Þórduna lætur ekki sitt eftir liggja og hefur pantað grímur fyrir nemendur sem eiga aðild að nemendafélaginu. Anna Kristjana Helgadóttir, formaður Þórdunu, segir að um tvö hundruð nemendur hafi pantað grímur, sem verða svartar með VMA-merkinu og merki Þórdunu, og eigi þeir von á henni ásamt öðru sem nauðsynlegt sé í baráttunni við Covid 19. Anna Kristjana segir að ekki sé lengur hægt að panta grímur, grímupöntunin sé farin suður yfir heiðar og er reiknað með að um þrjár vikur muni taka að afgreiða pöntunina. Þeir nemendur sem hafi pantað grímur eigi því von á Covid-pakkanum í boði Þórdunu síðar í þessum mánuði.