Um 77% nemenda VMA frá Akureyri og úr Eyjafirði
Eins og undanfarin ár hefur Jóhannes Árnason, kennari við VMA, greint tölulegar upplýsingar um nemendur VMA núna á haustönn. Þetta hefur hann gert í mörg undanfarin ár og því eru hér aðgengilegar fróðlegar upplýsingar til samanburðar frá liðnum árum.
Núna á haustönn stunda 1126 nemendur nám í dagskóla í VMA, þar af eru 694 karlar (61,6%) og 432 konur (38,4%). Þetta er nánast sama hlutfall milli kynja og á sama tíma í fyrra en í samanburði við árin 2011-2014 hefur körlum hlutfallslega verið að fjölga í skólanum í ár og í fyrra.
Sem fyrr hallar á kynin í nokkrum deildum skólans. Þannig eru 98% nemenda á sjúkraliðabraut konur og 96% í hársnyrtiiðn en hins vegar snýst dæmið við í málmiðnaðargreinum, vélstjórn, rafvirkjun, byggingagreinum og bifvélavirkjun. Sömuleiðis er mikill meirihluti nemenda á íþrótta- og lýðheilsubraut karlar en hins vegar eru meira en tveir af hverjum þremur nemendum á listnámsbraut konur. Á bóknámsbrautunum, félagsfræðabraut og náttúrufræðibraut, er hlutfall kynjanna nokkuð jafnt.
Mikill meirihluti nemenda VMA kemur frá Akureyri og nágrannabyggðum í Eyjafirði eða rösklega 77%. Þar af eru um 60% nemenda VMA frá Akureyri, 26% norðan Glerárár og 34% sunnan Glerár. Um 8% nemenda koma úr Þingeyjarsýslum og tæp 7% af Norðurlandi vestra (að Siglufirði undanskildum).