Um tuttugu lög í Söngkeppni VMA 18. febrúar
Nítján eða tuttugu lög verða flutt í Söngkeppni VMA sem verður fimmtudaginn 18. febrúar nk. í Menningarhúsinu Hofi. Frestur til að skrá sig í keppnina rann út sl. mánudag. Lagafjöldinn í ár er mjög svipaður og í fyrra.
Söngkeppni VMA er jafnan með stærstu viðburðum í félagslífi skólans á hverjum vetri og verður hún nú haldin í Hofi í annað skipti. Í fyrra var gerð tilraun með að færa keppnina úr Gryfjunni niður í Hof og gaf það mjög góða raun og því var ákveðið að gera það aftur í ár. Eins og jafnan er til mikils að vinna því sigurvegarinn fær ýmis verðlaun auk þátttöku fyrir hönd VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna.
Þegar nær dregur keppninni verður birt hér á heimasíðunni skrá yfir flytjendur og þau lög sem þeir koma til með að flytja.
Hljómsveitin verður sem fyrr heldur betur vel skipuð. Tómas Sævarsson hljómborðsleikari er hljómsveitarstjóri, Stefán Gunnarsson spilar á bassa, Hallgrímur Jónas Ómarsson spilar á gítar og Valgarður Óli Ómarsson spilar á trommur.
Sem sagt, takið strax frá fimmtudagskvöldið 18. febrúar og njótið tónlistarveislu í Hofi. Miðasala er að fara af stað á annars vegar á Mak.is og hins vegar Tix.is.