Umhverfismál á þemadögum í VMA
Þessa viku er þemavika í VMA þar sem áherslan er á sjálfbærni og umhverfismál í víðum skilningi. Í þessu sambandi er mikið horft til endurvinnslu og endurnýtingu hluta.
Á morgun, fimmtudag, kl. 15-18 verður efnt til „Götumarkaðar“ í Gryfjunni þar sem nemendur og kennarar geta komið með allt milli himins og jarðar til þess að selja – t.d. föt, skó, bækur, tímarit, raftæki o.fl. Nemendafélagið Þórduna ákvað að allur ágóði af sölunni skyldi renna til Aflsins – samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi. Tekið verður við söluvarningi strax í fyrramálið, fimmtudag, og síðan fram eftir degi á sviðinu í Gryfjunni.
Á morgun, fimmtudag, verður meira um að vera sem tengist umhverfismálum. Klukkan 13:15 verður kynning frá Gámaþjónustunni í M01, þar sem sagt verður frá flokkun rusls og hvað verði um það eftir flokkun. Kynningin verður að sjálfsögðu öllum opin.
Nemendur vinna að fjölþættum verkefnum í umhverfismálum þessa viku. Upp úr umræðu um þessi mál í enskutíma hjá Ernu Gunnarsdóttur urðu til þessir áminningarmiðar sem nú sjá má víða í skólanum.