Skipuleggja forvarnaviku í VMA
Viðburðastjórnun er viðfangsefni nemenda í áfanga hjá Sunnu Hlín Jóhannesdóttur kennara. Frá annarbyrjun hafa nemendur unnið að skipulagningu forvarnaviku sem verður í VMA dagana 22. til 26. október nk. Tilgangurinn er að vekja athygli á fíkniefnaneyslu ungs fólks og misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja sem er vaxandi vandamál. Ýmsar uppákomur verða í skólanum af þessu tilefni.
Nemendur í áfanganum hafa við undirbúning forvarnavikunnar verið í góðu samstarfi við forráðamenn Minningarsjóðs Einars Darra Óskarssonar sem lést í maí sl. eftir ofneyslu lyfsins OxyContin. Fulltrúar sjóðsins koma til Akureyrar og taka þátt í viðburðum í vikunni. Myllumerki minningarsjóðsins er #egabaraeittlif og einkunnarorð forvarnavikunnar í VMA er Eitt líf.
Forvarnavikan hefst mánudaginn 22. október kl. 13.15 með málstofu í M01 þar sem tveir nemendur í VMA, sem þekkja af eigin raun skuggahliðar neyslu, segja sína sögu.
Daginn eftir, þriðjudaginn 23. október, verður efnt til svonefndrar kærleikskeðju sem er þannig hugsuð að nemendur og starfsmenn VMA mynda óslitna keðju utan um skólahúsin í minningu þeirra allt of mörgu sem hafa látist á þessu ári vegna neyslu fíkniefna og ofneyslu lyfja.
Síðar þennan sama dag, nánar tiltekið kl. 17, verður bingó og kaffisala í VMA. Ágóðanum verður varið til þess að greiða þann kostnað sem til fellur við framkvæmd vikunnar. Bingóið verður öllum opið og er þess vænst að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í því og um leið að styrkja gott málefni. Verði afgangur af innkomnum fjármunum, þegar búið verður að greiða allan kostnað, rennur hann til áðurnefnds Minningarsjóðs Einars Darra.
Fimmtudaginn 25. október verða fulltrúar Minningarsjóðs Einars Darra með erindi í Gryfjunni og að kvöldi þess fimmtudags verður einn af hápunktum vikunnar í Gryfjunni, bland af töluðu orði og tónlist. Þessi viðburður verður öllum opinn og eru Akureyringar og nærsveitamenn hvattir til þess að sýna unga fólkinu stuðning með því að mæta og taka þátt. Meðal annarra munu taka til máls fulltrúar Minningarsjóðs Einars Darra, Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri og Saga Ýr Nazari rappari, sem braust út úr erfiðu neyslumynstri. Saga Ýr tekur að sjálfsögðu lagið og það gerir líka akureyrski tónlistarmaðurinn Birkir Blær.
Nánar verður fjallað um forvarnavikuna í VMA þegar nær dregur.