Undirbúningsfundur fyrir Ready for the World
Dagana 13. - 15. september fór fram í VMA fyrsti undirbúningsfundur að evrópsku samstarfsverkefni Erasmus+ sem VMA tekur þátt í með Morgen College í Harderwijk í Hollandi og SOSU – Randers Social- og Sunhedsskole í Danmörku. Í þessu nýja samstarfsverkefni, sem ber yfirskriftina Ready for the World, fara nemendahópar frá skólunum milli landanna til þess að fræðast og kynna sér siði og áherslur í þátttökulöndunum.
Undirbúningsfundinn í VMA sátu fyrir hönd skólans kennararnir Jóhannes Árnason, Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir og Valgerður Dögg Jónsdóttir. Verkefnið gengur m.a. út á að að nemendur í skólunum skoði sín samfélög út frá því hvernig þau leggi fólki lið á ýmsan hátt. Hér á landi liggi fyrir að áherslan verði m.a. á að kynna fyrir gestunum frá Hollandi og Danmörku hvernig björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar bregðist við ef eitthvað beri út af vegna m.a. náttúruhamfara eða slysa.
Í nóvember nk. er ætlunin að nemendur frá VMA og Morgen College í Harderwijk fari til Randers í Danmörku. Í mars á næsta ári eru ráðgerðir endurfundir í Herderwijk í Hollandi og loks er ætlunin að nemendur frá Hollandi og Danmörku komi til Akureyrar að ári liðnu, í september 2022.