Undirbúningur fyrir verklegt próf
Það fór ekki á milli mála að vinnuandi sveif yfir vötnum hjá nemendum og kennurum í gær, á fyrsta skóladegi eftir páskaleyfi. Enda þarf mörgu að ljúka á þeim skamma tíma sem eftir er af skólaárinu. Á matvælabrautinni höfðu nemendur í mörgu að snúast – verkefni dagsins var m.a. að elda lambakjöt.
Þegar líður að hádegi er mikið annríki á matvælabrautinni og hópnum er skipt upp í minni hópa – annars vegar þá sem sjá um eldamennskuna og hins vegar þá sem þjóna til borðs. Allt skal gert eftir settum reglum samkvæmt því sem nemendur hafa lært í vetur. Bæði er um að ræða nemendur sem hófu grunnnámið sl. haust og síðan bættust við nokkrir nemendur sem hófu nám á almennri braut sl. haust en kynningin á matvælabrautinni kveikti í þeim að færa sig yfir á hana.
Marína Sigurgeirsdóttir, brautarstjór matvælabrautar, segir að vegna kennaraverkfallsins hafi þurft að hætta að þessu sinni við árlegt foreldraboð matvælabrautar, sem átti að vera 10. apríl sl., en að öðru leyti takist að halda nokkuð óbreyttri kennslu frá upphaflegri áætlun. Aðal áherslan núna sé að undirbúa nemendur fyrir verklegt próf í maí.
Í dag voru nemendur að vinna vel í öllum hornum – sumir í eldamennskunni, aðrir að dekka borð og vinna í þeim hluta sem snýr að starfi þjónsins. Nemendur hafa m.a. verið að fá fræðslu í meðhöndlun lambakjöts og lambið var einmitt réttur dagsins.