Ungskáld 2023 - skilafrestur til 16. nóvember
Nú er tækifærið fyrir ungskáld á aldrinum 16-25 ára að setjast niður og skrifa – eða fara í skúffuna og draga fram áður óbirt hugverk - og senda í ritlistakeppni Ungskálda 2023. Skilafrestur er til miðnættis 16. nóvember nk. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þó er skilyrði að hann sé á íslensku og eigið frumsamið hugverk. Peningaverðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin í keppninni.
Rétt er að geta þess að kaffihúsakvöld verður á vegum Ungskálda á Kaffi Lyst í Lystigarðinum á Akureyri þriðjudagskvöldið 5. desember kl. 20:00-21:30, sem er hugsað fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem hefur áhuga á ritlist. Kaffihúsakvöldið er hugsað sem gott tækifæri til að hitta önnur skáld, kynnast verkum þeirra og jafnvel lesa upp sín eigin verk. Þann 7. desember kl. 17:00 mun dómnefnd síðan kunngjöra úrslita í ritlistasamkeppni Ungskálda 2023 við hátíðlega athöfn á Amtsbókasafninu á Akureyri.
Verkefnið Ungskáld hófst árið 2013 og er það eina sinnar tegundar á landinu. Það er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.
Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, VMA, MA, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu.