Innsetning á gangi VMA
Innsetning í myndlist felur það í sér að listaverk er sett inn í ákveðið rými – það skapar listaverkinu umgjörð og markar þannig verkið. Einn af áföngunum sem nemendur á listnáms- og hönnunarbraut eru í núna á vorönn nefnist „Hugmyndavinna“ og þar er m.a. fjallað um aðferðir til þess að efla skapandi hugsun, að þróa hugmyndir og koma þeim á framfæri.
Eitt af hópaverkefnum nemendanna í áfanganum er innsetning í húsakynnum VMA – að skapa listaverk inn í ákveðin rými í skólanum. Eitt þessara verka er á þrönga ganginum við hlið byggingadeildar. Þar hafa nokkrar nemendur í hugmyndaáfanganum hjá Örnu Valsdóttur (hún er með hann á móti Veronique Legros) skapað skemmtilegt verk úr mislitum þráðum.
Arna segir að hugmyndin sé meðal annars sú að fá nemendur til þess að velta fyrir sér mismunandi arkitektúr bygginga og sjá út möguleikana á því að setja upp listaverk í þeim. Þetta sé áhugaverð leið til þess að opna augu nemenda fyrir sínu nánasta umhverfi og skoða það út frá öðrum sjónarhornum en dags daglega.
Á þessum myndum sem Arna Valsdóttir tók eru nemendur að vinna að því að setja upp verk sitt. Tveir af nemendunum sem unnu þráðaverkið á ganginum eru Bjarki Höjgaard og Ísak Lindi Aðalgeirsson. Báðir eru þeir Akureyringar og hófu nám á listnámsbraut VMA sl. haust og þykir það áhugavert. Þeir eru sammála um að það hafi verið afar áhugavert að velta vöngum yfir því hvernig hópurinn gæti skapað innsetningu inn í hluta rýmis VMA – margar og misjafnar hugmyndir hafi verið uppi áður en hópurinn komst að niðurstöðu.