Fara í efni

Uppskriftahornið: Skinku- og hangikjötshorn

Í þessu síðasta uppskriftahorni VMA á þessu haustmisseri gefur Borghildur F. Blöndal, kennslustjóri raungreinasviðs, okkur gómsæta uppskrift að skinku- og hangikjötshorni. Það fer vel á því að baka slík horn og gæða sér á milli smákökubitanna og konfektmolanna sem eiga eftir að ná tökum á þjóðinni á næstu dögum og vikum. Borghildur skorar á Hrafnhildi, gæðastjóra VMA, að koma með næstu uppskrift og mun hún birtast hér á vefnum á nýju ári.

Í þessu síðasta uppskriftarhorni VMA á þessu haustmisseri gefur Borghildur F. Blöndal, kennslustjóri raungreinasviðs, okkur gómsæta uppskrift að skinku- og hangikjötshorni.  Það fer vel á því að baka slík horn og gæða sér á milli smákökubitanna og konfektmolanna sem eiga eftir að ná tökum á þjóðinni á næstu dögum og vikum. Borghildur skorar á Hrafnhildi , gæðastjóra VMA,  að koma með næstu uppskrift og mun hún birtast hér á vefnum á nýju ári.

Hér kemur uppskrift Borghildar og ráðleggingar hennar um baksturinn:

Skinku- og hangikjötshorn (um það bil 16 stykki)

Þetta þarf:
2 dl vatn(ylvolgt)
35 gr pressuger eða 3 ½  tsk þurrger (1poki)
1 tsk salt (Herbamare)
1 tsk sykur
50 g smjörlíki
5-6 dl hveiti

Fylling:
120 gr skinka
120 gr hangikjöt
150 gr smurostur( skinkusmurostur)
2 msk graslaukur(má sleppa)

Allt sett í matvinnsluvél og saxað saman.

Til að pensla með:
Egg eða eggjarauða.

Aðferð:
- Hitið ofninn í 225°C
- Leysið gerið upp í volgu vatni.
- Setjið sykur og salt út í gerlausnina.
- Á meðan gerið leysist upp, myljið hörðu smjörlíki saman við hveitið.
- Setjið hveitið út í skálina og hnoðið vel saman.
- Geymið í smá stund á meðan þið gerið fyllinguna.
- Skiptið deiginu svo í tvo parta.
- Fletjið hvorn part út í kringlótta köku.
- Skiptið kökunni svo í 8 hluta .
- Setjið 1-2 tsk af fyllingu á hvern hluta.
- Rúllið deiginu upp frá breiðari endanum, og snúið svo upp á hornin, svo það leki ekki allt úr þeim, sjá þessar skýringarmyndir.
- Látið hefast á hlýjum stað í 30 – 40 mínútur eða þar til hornin hafa nánast tvöfaldast að stærð.
- Penslið skinkuhornin með sundurslegnu eggi og bakið svo í 10 mín.

Hornin má frysta. Best að borða þau heit/volg.

Mér finnst betra að setja meira en minna af fyllingu í skinkuhornin. Raðið hornunum á bökunarplötu. Gætið þess að hafa þau ekki of þétt á plötunni því þau stækka talsvert í lyftingunni. Penslið yfir hornin með sundurslegnu eggi.